25. nóv. 2016

Jóla- og góðgerðardagur á Álftanesi

Laugardaginn 26. nóvember verður árlegur jóla- og góðgerðardagur á Álftanesi frá kl. 12-16. Skemmtidagskrá verður í gangi allan daginn með söngatriðum, danssýningum, uppboði o.fl. Kl. 16:10 verða ljósin tendruð á jólatrénu á Álftanesi fyrir utan íþróttamiðstöðina.
  • Séð yfir Garðabæ

Laugardaginn 26. nóvember kl. 12-16 verður hinn árlegi jóla- og góðgerðardagur í íþróttamiðstöðinni á Álftanesi. Það er Foreldrafélag Álftanesskóla sem stendur að deginum sem nú er haldinn í áttunda sinn. Mörg af helstu félagsamtökunum á Álftanesi koma að undirbúningi og framkvæmd þessa samfélagslega verkefnis, þar má nefna Lionsklúbb Álftaness, Lionsklúbbinn Seylu, Kvenfélag Álftaness og UMFÁ en auk þess styður Garðabær við verkefnið. 

Dagskráin verður fjölbreytt og nemendur í Álftanesskóla leika þar stórt hlutverk. Skemmtidagskrá verður í gangi allan daginn með söngatriðum, danssýningum, uppboði og mörgu fleiru.  Markaðsstemmning verður í húsinu þar sem fjölmargir aðilar kynna og selja vörur sínar. UMFÁ býður gestum og gangandi upp á veitingar í tilefni 70 ára afmælis félagsins. Lionsklúbbarnir verða með ókeypis blóðsykursmælingar. Rauði kross Íslands tekur á móti fatagjöfum. Hægt verður að setja jólagjafir undir tré sem Hjálparstarf kirkjunnar sér um að útdeila. Tombóla verður til styrktar Líknarsjóði Álftaness.

Ljósin tendruð á jólatrénu á Álftanesi kl. 16:10

Kl. 16:10 verða ljósin tendruð á jólatrénu á Álftanesi fyrir utan íþróttamiðstöðina.  Jóna Sæmundsdóttir, varaforseti bæjarstjórnar, ávarpar gesti og sr. Stefán Már Gunnlaugsson flytur nokkur orð. Hrafnkell Pálmarsson og Pálmar Ólafsson halda uppi jólastemmningu og spila jólalög um leið og dansað verður í kringum jólatréð.  Aldrei að vita nema jólasveinar mæta fyrr til byggða þennan dag.

Jóla- og góðgerðardagur - viðburður á fésbókinni.

Hér í viðburðadagatalinu á vef Garðabæjar er hægt að sjá dagskrá jóla- og góðgerðardagsins 

Laugardaginn 3. desember verða ljósin tendruð á vinabæjarjólatrénu á Garðatorg, sjá nánar hér í viðburðadagatalinu.