24. nóv. 2016

Dagur barnasáttmálans á Hæðarbóli

Nemendur og starfsfólk á Hæðarbóli héldu upp á dag barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna 21. nóvember sl.
  • Séð yfir Garðabæ

Nemendur og starfsfólk á Hæðarbóli héldu upp á dag barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna 21. nóvember sl.

Í aðdraganda dagsins fól stjórnendateymi leikskólans leikskólastjóra að funda með börnunum og fá frá þeim hugmyndir um hvað þau vildu gera í tilefni dagsins. Margar og fjölbreyttar hugmyndir komu fram, flestar tengdar leik í einhverri mynd. Þau óskuðu líka eftir því að fara í heimsóknir á aðrar deildir, skoða skrifstofu leikskólastjóra, helda vöfflupartý og fara inn á kaffistofu kennara.

Í samræmi við óskir barnanna var sett saman dagskrá á milli kl. 9 og 10.45 þar sem hæst bar vöfflupartý í kaffistofunni. Einnig var skrifstofa leikskólastjóra opin og börnin frædd um helstu verkefni hans, sett var upp starfsstöð í vinnuherbergi kennara þar sem börnin gátu litað og teiknað skoðað bækur og fleira. Kubbastöð var sett upp í salnum og börnunum var boðið að heimsækja allar deildir leikskólans.

Alþingi samþykkti síðastliðið vor að helga 20. nóvember hvert ár, barnasáttmálanum og beindi um leið þeim tilmælum til skóla landsins að halda upp á daginn með eftirminnilegum hætti. Þar sem 20. nóvember var sunnudagur í ár, var ákveðið að halda upp á daginn á mánudeginum.