23. nóv. 2016

Smáíbúðir í Urriðaholti

Í fjölbýlishúsinu Urriðaholtsstræti 10-12 verða allt af 36 smáíbúðir frá 25 fermetrum að stærð.
  • Séð yfir Garðabæ

Í fjölbýlishúsinu Urriðaholtsstræti 10-12 verða allt af 36 smáíbúðir frá 25 fermetrum að stærð. Með því að heimila byggingu smáíbúða er Garðabær að leggja sitt af mörkum til að koma til móts við mikla eftirspurn á fasteignamarkaði eftir litlum íbúðum, sérstaklega á meðal ungs fólks. Einnig er horft til umhverfissjónarmiða og þess að breikka úrval íbúða í bænum.  

Að málinu hefur verið unnið í samstarfi við þróunaraðila hverfisins og er litið á það sem tilraunaverkefni. Jón Pálmi Guðmundsson, framkvæmdastjóri Urriðaholts ehf. segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að áætlað sé að byggingarframkvæmdir hefjist fljótlega eftir áramót. Fyrstu íbúðirnar verði tilbúnar vorið 2018 samkvæmt áætlun.

Allar íbúðirnar verða leiguíbúðir en bærinn gerir þá kröfu að allt húsið verði í eigu sama aðila og að íbúðirnar verði í langtímaleigu. Lögð er áhersla á að íbúðirnar séu allar vel útbúnar þrátt fyrir smæðina og var m.a. leitað til IKEA við hönnun þeirra.

Frétt á mbl.is frá 22. nóvember 2016

Mikil uppbygging er á íbúðarhúsnæði í Garðabæ. Á þessu ári hafa rúmlega 40% af öllum fasteignaviðskiptum í Garðabæ verið sala á nýjum íbúðum sem er langhæsta hlutfallið þegar horft er til sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.