22. nóv. 2016

Bæjarból í 40 ár

Starfsfólk og nemendur á Bæjarbóli fögnuðu 40 ára afmæli leikskólans með góðum gestum 15. nóvember sl.
  • Séð yfir Garðabæ

Leikskólinn Bæjarból átti 40 ára afmæli 15. nóvember sl. Starfsmenn og nemendur skólans héldu upp á afmælið allan daginn.

Foreldrafélagið gaf góða gjöf

Eins og gengur með stórafmæli var búið að undirbúa daginn vel. Börnin skreyttu veggi leikskólans með listaverkum og öðru skrauti og einnig bjuggu þau til afmælishatta sem þau voru með í afmælinu. Um morguninn var söngur á sal þar sem afmælissöngurinn var sunginn og fleiri skemmtileg lög. Í salnum var einnig afhent glæsileg afmælisgjöf frá foreldrafélaginu, stórt þríhjól til að hafa úti í garði.

Í hádegismat fengu börnin pizzu og ís í eftirrétt og eftir hádegi fóru þau spennt út í garð til að prófa nýja hjólið. Klukkan 15:00 var opið hús á leikskólanum þar sem boðið var upp á kökur, ávexti, mjólk og kaffi. Mætingin var mjög góð en áætlað er að um 300 manns hafi komið að heimsækja leikskólann. Meðal annarra litu margir fyrrverandi starfsmenn inn og rifjaðar voru upp gamlar minningar í máli og myndum.

Fyrsta leikskólabyggingin

Í Sögu Garðabæjar kemur fram að mikil tímamót urðu í leikskólamálum í Garðabæ þegar Bæjarból tók til starfa árið 1976 því hús skólans var fyrsta byggingin sem var reist í bænum sem leikskóli. Pálmar Ólason arkitekt teiknaði skólann og Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt skipulagði lóð hans. Upphaflega var aðeins ein deild á Bæjarbóli en tvær deildir bættust við árin 1978 og 1979. Á árinu 1996 var byggð 25 fermetra viðbygging við skólann með aðstöðu fyrir starfsmenn og síðar var þar komið upp eldhúsi. Önnur viðbygging var tekin í notkun á árinu 2000. Í henni var rými fyrir nýja deild, nýtt eldhús og sal en alls var viðbyggingin 255 fermetrar.

Fyrsti leikskólastjóri Bæjarbóls var Sigurlaug Gísladóttir en Erna Aradóttir gengdi því starfi lengst af. Erna lét af störfum í ágúst 2008 og þá tók Kristín Sigurbergsdóttir við. Núverandi leikskólastjóri Bæjarbóls er Anna Bjarnadóttir.

Sjá frétt og fleiri myndir frá afmælinu á vef Bæjarbóls