11. nóv. 2016

Söguganga og afhjúpun söguskiltis á Skansinum

Forseti Íslands og bæjarstjóri afhjúpa söguskilti á Skansinum á Bessastaðanesi laugardaginn 12. nóvember. Söguganga frá Eyri, nyrst á Álftanesi, að Skansinum hefst kl. 11:30
  • Séð yfir Garðabæ

Forseti Íslands og bæjarstjórinn í Garðabæ afhjúpa söguskilti á Skansinum á Bessastaðanesi laugardaginn 12. nóvember. Boðið er til sögugöngu af því tilefni, lagt verður af stað kl. 11:30 frá Eyri, nyrst á Álftanesi og gengið að Skansinum. Við Skansinn er kenndur hinn eini sanni Óli Skans en hvert mannsbarn þekkir vísuna um hann.

Ragnheiður Traustadóttir, fornleifafræðingur, verður leiðsögumaður í sögugöngunni og segir frá sögu Skansins. Einnig verður sagt frá endurheimt votlendis skammt frá Skansinum í leiðsögn Erlu Biljar Bjarnardóttur umhverfisstjóra Garðabæjar. 

Skansinn á Bessastaðanesi var reistur árið 1668 í kjölfar Tyrkjaránsins sem markaði djúp spor í sögu þjóðarinnar. Virkið á Bessastöðum er áþreifanlegar minjar um þennan sögulega atburð. Þá er bærinn sjálfur merkilegur fyrir þær sakir að þar bjó Óli Skans í kotbýli á 19. öld. Skansinn var friðlýstur af Þjóðminjaverði árið 1938.

Allir eru velkomnir í sögugönguna.  Meðfylgjandi mynd með frétt sýnir mætingarstaðinn á Eyri og þaðan er létt ganga að Skansinum (um 850 metrar).

Sögugangan á fésbókarsíðu Garðabæjar.