10. nóv. 2016

Efla jákvætt viðhorf til stærðfræði

Verkefnið Stærðfræðistofan, sem er eitt af fjölmörgum þróunarverkefnum sem unnið er að í grunnskólunum í Garðabæ, er kynnt í umfjöllun á baksíðu Morgunblaðsins í dag.
  • Séð yfir Garðabæ

Verkefnið Stærðfræðistofan, sem er eitt af fjölmörgum þróunarverkefnum sem unnið er að í grunnskólunum í Garðabæ, er kynnt í umfjöllun á baksíðu Morgunblaðsins í dag. Kennararnir Bryndís Stefánsdóttir og Ásta Kristjánsdóttir, sem kenna á yngra stigi í Hofsstaðaskóla hafa þróað verkefnið sem felst m.a. í að efla jákvætt viðhorf nemenda til stærðfræði.

Í viðtali við Morgunblaðið segja þær Bryndís og Ásta að hvatinn að verkefninu hafi verið að auka fjölbreytni í stærðfræðikennslu. Til þess hafa þær m.a. búið til vef um stærðfræðikennslu yngri barna, þ.e. barna í 1.-4. bekk. „Síðan er gerð fyrir kennara en líka foreldra ef þeir vilja finna stærðverkefni fyrir börnin sín. Á vefnum deilum við hlutbundnum stærðfræðiverkefnum. Það eru verkefni þar sem við notum alls konar gögn og hversdagslegt dót eins og tappa,“ sagði Bryndís í samtali við Morgunblaðið.

Í stærðfræðistofunni vinna börnin gjarnan saman í hópum eða á stöðvum og áhersla er lögð á að þau fái að tala saman um stærðfræði. Bryndís segir að börnin kunni vel að meta þetta fyrirkomulag. "Okkur finnst börnin alltaf vera glöð og jákvæð, finnum aldrei fyrir leiða hjá þeim," segir hún í Morgublaðinu í dag.

Sjá frétt á mbl.is