27. okt. 2016

Forkynning aðalskipulags

Fjölbreyttar leiðir við forkynningu á aðalskipulagi Garðabæjar; m.a. kynningarbæklingur, opinn fundur, og plaköt. Bæjarstjóri og skipulagsstjóri bjóða einnig upp á spjall á völdum stöðum í bænum
  • Séð yfir Garðabæ

Fjölbreyttar leiðir verða farnar við forkynningu á fyrsta aðalskipulagi sameinaðs Garðabæjar sem tekur við af núverandi aðalskipulagi Álftaness og Garðabæjar. M.a. hefur kynningarbæklingi verið dreift í hús, haldinn verður opinn fundur, plaköt hanga uppi í bænum, hægt er að panta viðtal hjá skipulagsstjóra eða hitta bæjarstjóra og skipulagsstjóra á völdum stöðum í bænum. 

Skiptir alla máli

Aðalskipulagsáætlun er skipulagsáætlun sem tekur til alls lands, vatns og hafs innan marka sveitarfélagsins. Í aðalskipulagi er mótuð stefna um ýmis mikilvæg viðfangsefni sem snerta þróun sveitarfélagsins; landnotkun, byggðaþróun og -mynstur, samgöngur, þjónustukerfi og umhverfismál. Þar er einnig lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags og m.a. horft til þéttleika byggðar. Í aðaskipulagi er mörkuð stefna til allt að 12 ára en jafnframt er horft lengra fram á veginn. Aðalskipulag skiptir því alla núverandi og tilvonandi íbúa Garðabæjar máli.

Íbúafundur í Flataskóla

Í kynningarbæklingi sem dreift hefur verið í öll hús í Garðabæ hvetur bæjarstjóri íbúa til að láta sig málið varða með því að senda inn ábendingar og hugmyndir en opið er fyrir þær til 21. nóvember. Á uppdrættinum í bæklingnum er tillagan sett fram myndrænt og á bakhlið hans er hægt að lesa um helstu nýjungar og breytingar sem tillagan felur í sér. Vísað er til hverrar þeirra með númeri á uppdrættinum.

Á vef Garðabæjar, gardabaer.is eru ítarlegri gögn og jafnframt verður tillagan kynnt á opnum íbúafundi í Flataskóla 2. nóvember nk.

Kynningarstandar á þremur stöðum

Kynningarstandar með plakötum sem sýna helstu nýjungar og breytingar í þeim drögum sem nú liggja fyrir hafa verið settir upp á þremur stöðum í bænum; Á Garðatorgi, fyrir framan Víði, í anddyrinu í Ásgarði og í anddyri Álftaneslaugar.

Bæjarstjóri og skipulagsstjóri verða við standana klukkustund í senn á næstu dögum og svara spurningum þeirra sem eiga leið framhjá:

1. Á Garðatorgi, mánudaginn 31. október kl. 16-17
2. Í Ásgarði, þriðjudaginn 1. nóvember kl. 15.30-16.45
3. Í Álfaneslaug, miðvikudaginn 2. nóvember kl. 8-9 f.h.     

Skipulagsstjóri til viðtals

Hægt er að panta viðtalstíma hjá skipulagsstjóra til að ræða aðalskipulagið, fá nánari skýringar á tilteknum atriðum og/eða koma ábendingum á framfæri. Hafið samband við þjónustuver Garðabæjar í síma: 525 8500 til að fá tíma.

Í skipulagslögum er kveðið á um að aðalskipulag skuli unnið í samráði við íbúa. Það er í takti við lýðræðisstefnu Garðabæjar og því er bæjaryfirvöldum það bæði ljúft og skylt að leita ólíkra leiða til að kynna tillöguna fyrir íbúum og að taka við þeirra ábendingum. Eftir því sem fleiri taka þátt í ferlinu aukast líkurnar á að endanleg tillaga verði í samræmi við sýn sem flestra Garðbæinga um þróun samfélagsins.