13. okt. 2016

Ræddi um forvarnir við nemendur 9. bekkjar

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands heimsótti sinn gamla skóla, Garðaskóla, í gær í tilefni af forvarnadeginum sem haldinn er ár hvert að frumkvæði forsetaembættisins.
  • Séð yfir Garðabæ

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands heimsótti sinn gamla skóla, Garðaskóla, í gær í tilefni af forvarnadeginum sem haldinn er ár hvert að frumkvæði forsetaembættisins.

Forsetinn stýrði dagskrá með nemendum 9. bekkjar sem tók tvær kennslustundir og fólst þátttaka nemenda meðal annars í því að svara spurningum í hópum. Spurningarnar sneru að samveru með fjölskyldu og vinum, skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og frestun þess að hefja áfengisneyslu en þessir þættir skipta höfuðmáli þegar kemur að forvörnum, samkvæmt rannsóknum. 

Í lok dagskrár horfði forsetinn á veglegt myndband, þar sem fyrirmyndir koma fram og segja sína sögu. Myndbandið er hægt að horfa á, á vef Garðaskóla. Áður en forsetinn sleit dagskránni, spjallaði hann við nemendur 9. bekkjar um forvarnir, embætti forsetans og ýmislegt annað. Létu nemendur mjög vel af heimsókn forsetans, sem sjálfur var nemandi í Garðaskóla á sínum tíma.