7. okt. 2016

Forvarnavika um net- og skjánotkun barna

Forvarnavika verður í grunnskólum í Garðabæ vikuna 10.-14. október. Þema vikunnar er net- og skjánotkun barna og ungmenna.
  • Séð yfir Garðabæ

Forvarnavika verður í grunnskólum í Garðabæ vikuna 10.-14. október. Þema vikunnar er net- og skjánotkun barna og ungmenna. Í vikunni verður boðið upp á fræðslu um þau áhrif sem slík notkun getur haft í för með sér og hvernig skynsamlegt sé að nota slík tæki.

Undirbúningur fyrir vikuna hefur staðið yfir frá því á vordögum og hafa skólarnir unnið ötullega að undirbúningnum. Í öllum skólum bæjarins verða sérfræðingar á þessu sviði með fræðslu fyrir nemendur í 6. – 10. bekk og starfsfólk skólanna. Fyrirlestrarnir verða tvenns konar, annars vegar um netnotkun barna og ungmenna og hins vegar um líðan og sjálfsmynd. Nemendur í öllum bekkjadeildum í grunnskólum Garðabæjar taka þátt í umræðum um mál tengd skjánotkun og vinna einnig að verkefnum sem tengjast málefninu.

Foreldrum verður einnig boðið á fræðslufund um netfíkn þriðjudaginn 11. október. 

Hugmyndavinna meðal nemenda fyrr í haust skilaði slagorði vikunnar sem er „Ertu gæludýr símans þíns“. Það var hópur nemenda í Sjálandsskóla sem kom með þá hugmynd. Í framhaldi var haldin teiknisamkeppni um mynd á veggspjöld með hliðsjón af slagorðinu og hlutu fjórar teikningar viðurkenningu. Vinningsmyndina teiknaði Magdalena Arinbjörnsdóttir nemandi í Sjálandsskóla en hinar myndirnar þrjár teiknuðu Óttar Egill Arnarsson Garðaskóla, Laufey Sara Malmquist Garðaskóla og í sameiningu Baldur Ingi Pétursson og Friðrik Rafn Ólafsson í Flataskóla. Þessar myndir ásamt slagorðinu munu prýða veggspjöld og eiga vafalítið eftir að minna okkur á mikilvægi þess að stýra okkar eigin net- og skjánotkun af skynsemi. Veggspjöldin verða hengd upp í skólum og öðrum byggingum Garðabæjar í forvarnavikunni.

Forvarnavikan er samstarf mannréttinda- og forvarnanefndar Garðabæjar og grunnskólanna í bænum en fræðslufundurinn fyrir foreldra er haldin í samvinnu við Grunnstoð Garðabæjar sem er samstarfsvettvangur foreldrafélaga í grunnskólum Garðabæjar.

Smellið á myndina til að fá auglýsinguna í pdf-skjali.

Auglýsing um forvarnavikuna