9. sep. 2016

Skemmtileg afmælishátíð

Afmælishátíð Garðabæjar var haldin laugardaginn 3. september sl. í tilefni af 40 ára afmæli Garðabæjar á þessu ári. Hátíðin fór fram á Garðatorgi sem var lokað allri bílaumferð um daginn. Sannkallað hátíðarveður var um daginn hlýtt í veðri og sól og þótt reyndar hafi skollið á rigningardemba í lok dags kom það ekki að sök.
  • Séð yfir Garðabæ

Afmælishátíð Garðabæjar var haldin laugardaginn 3. september sl. í tilefni af 40 ára afmæli Garðabæjar á þessu ári.  Hátíðin fór fram á Garðatorgi sem var lokað allri bílaumferð um daginn.  Sannkallað hátíðarveður var um daginn hlýtt í veðri og sól og þótt reyndar hafi skollið á rigningardemba í lok dags kom það ekki að sök.

Gunnar Einarsson bæjarstjóri setti hátíðina og óskaði Garðbæingum til hamingju með afmælið.  Um leið bauð hann 15 þúsundasta Garðbæinginn, stúlku sem fæddist 12. ágúst sl., ásamt fjölskyldu upp á svið til sín.  Foreldrar stúlkunnar eru þau Telma Kjaran og Daði Halldórsson sem voru mætt ásamt tveimur af þremur eldri bræðrum stúlkunnar litlu.  Bæjarstjóri og Gunnar Valur Gíslason, forseti bæjarstjórnar, færðu þeim blómvönd og gjafakort frá Garðabæ af þessu tilefni.  

15 þúsundasti íbúi Garðabæjar

 

 

 

 

 

 

 

 

 
Því næst tók við dagskrá á sviði og Þórunn Erna Clausen leik- og söngkona var kynnir dagsins.  Tilkynnt var um val á vinningstillögu í samkeppni um aðkomutákn Garðabæjar og um leið var opnuð sýning á innsendum tillögum í keppnina í Hönnunarsafni Íslands.  Sjá nánar í frétt hér.

Fjölbreytt dagskrá 

Fjölbreytt dagskrá var á sviði utandyra þar sem fram komu Ævar vísindamaður, Ragnheiður Gröndal og Guðmundur Pétursson, Í svörtum fötum, Ylfa Marín, Rebekka Sif, Hórmónar, Dikta, Úlfur Úlfur og Páll Óskar.  Á torginu var einnig hægt að taka þátt í sirkusskóla hjá Sirkus Íslands, horfa á loftfimleikaatriði, sjá BMX strákana leika listir sínar og hoppa í hoppukastala.  Ungt og efnilegt fimleikafólk úr Stjörnunni sýndi svo listir sýnar innandyra á torginu fyrir framan Bókasafn Garðabæjar. 

Góð stemning á torginu

Mörg fyrirtæki á torginu tóku þátt í dagskránni og mikil ánægja var á meðal hátíðargesta að geta gengið um torgið, snætt sér á afmælisköku, heimsótt verslanir, kaffihús, veitingastað og önnur þjónustufyrirtæki.  Margir voru með ýmis tilboð í tilefni dagsins, buðu upp á kaffi og drykki, grillsmakk og ýmsa menningu svo sem ljósmyndasýningu, myndlistarsýningu o.fl.

Að lokinni afmælishátíð voru svo margir Garðbæingar sem héldu gleðinni áfram og voru með götugrill fyrir nágranna, fjölskyldur og vinahópa og fjölmargir fengu trúbador í heimsókn til sín í boði Garðabæjar.

Meðfylgjandi þessari frétt eru nokkrar stemningsmyndir frá afmælishátíðinni en fleiri myndir frá laugardeginum eru í myndaalbúmi á fésbókarsíðu Garðabæjar.