1. sep. 2016

Afmælishátíð Garðabæjar laugardaginn 3. september kl. 13.30-18

Garðabær fagnar 40 ára afmæli sínu á þessu ári og haldið er upp á tímamótin á ýmsa vegu á árinu. Framundan er afmælishátíð Garðabæjar sem verður haldin laugardaginn 3. september kl. 13.30-18 í miðbæ Garðabæjar á Garðatorgi.
  • Séð yfir Garðabæ

Garðabær fagnar 40 ára afmæli sínu á þessu ári og haldið er upp á tímamótin á ýmsa vegu á árinu. Framundan er afmælishátíð Garðabæjar sem verður haldin laugardaginn 3. september kl. 13.30-18 í miðbæ Garðabæjar á Garðatorgi.   Á Garðatorgi verður sett upp stórt svið utandyra og torginu verður lokað fyrir bílaumferð um daginn á meðan á hátíðinni stendur.  

Dagskráin er aðgengileg í viðburðadagatalinu hér á vef Garðabæjar og á fésbókarsíðu bæjarins.

Dagskrá - auglýsing (pdf-skjal)

Frétt um hátíðarstrætó sem ekur á meðan á hátíðinni stendur.

Þess má geta að Páll Óskar mætir að sjálfsögðu á Garðatorgið þennan dag en í birtri dagskrá í auglýsingu í afmælisriti Garðapóstsins yfirsást að nafn hans var ekki inni á dagskránni kl. 17:15. 

Dagskrá á sviði utandyra

Hátíðin verður sett kl. 13.30 og boðið verður upp á afmælisköku eða öllu heldur afmælismöffins innandyra á torgunum.  Kynnir afmælishátíðarinnar verður leik- og söngkonan Þórunn Erna Clausen.
Í byrjun dagskrár verður tilkynnt um vinningshafa í hugmyndasamkeppni um aðkomutákn fyrir Garðabæ.  Því næst stígur á svið Ragnheiður Gröndal og flytur nokkur lög fyrir gesti og svo tekur við skemmtidagskrá á sviðinu þar sem Ævar vísindamaður sýnir kúnstir sínar og músin Píla Pína mætir einnig til leiks.  Flottar hljómsveitir og tónlistarmenn taka svo við hver af öðrum og flytja vel valin lög fyrir hátíðargesti.  Þar má nefna hljómsveitirnar sem eiga ættir sínar að rekja til Garðabæjar Í svörtum fötum,  Hórmónar og Dikta.  Ungar og efnilegar söngkonur úr Garðabæ þær Ylfa Marín og Rebekka Sif koma fram hvr í sínu lagi og flytja frumsamin lög ásamt meðleikurum.  Hinir vinsælu rapparar í Úlfur Úlfur stíga á svið síðdegis og dagskránni lýkur svo með stórstjörnu Íslands Páli Óskari.

Á torginu

Sirkusskóli Sirkus Íslands mætir á torgið og sirkuslistamenn verða einnig með atriði fyrir gesti um daginn.  BMX strákarnir hafa slegið í gegn undanfarið á ýmsum hátíðum víðs vegar um landið þar sem þeir hafa leikið listir sínar og verða mættir til leiks á Garðatorgið á afmælishátíðinni.  Ungir og efnilegir fimleikakrakkar úr Stjörnunni ætla einnig að sýna atriði á torginu á hátíðinni.  Inni á torgunum verða sett upp borð og stólar og gestir geta því tyllt sér þar og spjallað saman á meðan á hátíðinni stendur.

Verslun, þjónusta og söfn

Margar verslanir, þjónustufyrirtæki, kaffihús og veitingastaðir á torginu verða með opið hús, heitt á könnunni og ýmislegt á boðstólum í tilefni dagsins.  Þar má nefna grillsmakk, ljósmyndasýningu Jónu Þorvaldsdóttur, myndlist, gæfukortalestur o.fl.  Í Gróskusalnum opnar myndlistarsýning Thulin Johansen og myndlistarmenn úr Grósku gleðja hátíðargesti.

Í Hönnunarsafninu opnar sýning á tillögum í hugmyndasamkeppni um aðkomutákn fyrir Garðabæ.  Þar verður einnig hægt að skoða áhugaverða muni sem valinkunnir Garðbæingar hafa valið undir yfirskriftinni ,,Bentu á þann sem að þér þykir bestur“.   Ungir gestir með snjallsíma geta einnig tekið þátt í QR leik með safngripi í Hönnunarsafninu og í Bókasafni Garðabæjar er einnig boðið upp á slíkan leik.  Í bókasafninu hefst dagskráin kl. 13 með örnámskeiðinu Yoga og núvitund, þar verður meðal annars hægt að sjá ljósmyndasýningu á skjám, mála og búa til sameiginlegt listaverk. 

Afmælisstrætó

Garðbæingar eru hvattir til að koma gangandi á Garðatorgið og einnig er í boði að fá ókeypis far með sérstökum afmælisstrætó sem fer um helstu götur bæjarins á hálftíma fresti á meðan á hátíðinni stendur.  Strætóleiðir eru auglýstar í dagskrá í afmælisriti Garðapóstsins og á vef Garðabæjar.
Gestir sem koma akandi geta nýtt sér bílastæði í bílakjallara Garðatorgs, bílastæði norðan, austan og vestan megin við Garðatorg (við Hrísmóa,  Vídalínskirkju, Tónlistarskóla, Vistor, Flataskóla og Garðaskóla og víðar).

Afmælissund – ókeypis aðgangur í sundlaugarnar

Í tilefni afmælis Garðabæjar verður ókeypis aðgangur í báðar sundlaugar Garðabæjar, Álftaneslaug og Ásgarðslaug,  á afmælishátíðardaginn laugardaginn 3. september.  Álftaneslaug opnar kl. 09 og er opin til kl. 19 en Ásgarðslaug er opin frá kl. 08 til kl. 18 um daginn.

Trúbadorar í götugrill

Garðbæingar sem vilja halda áfram gleðinni að lokinni afmælishátíð geta enn sótt um að fá trúbador í heimsókn í götugrill nágranna, stórfjölskyldna eða vinahópa. Óskir þar um má senda á netfang Garðabæjar gardabaer@gardabaer.is  sem fyrst. Ef margir bætast við þá sem þegar hafa sótt um verður dregið á milli þeirra sem bætast við síðast í hópinn. 

Skemmtum okkur vel saman á afmælishátíð Garðabæjar!