26. ágú. 2016

Sunnudagsopnun í Króki

Bærinn Krókur á Garðaholti hefur verið opinn alla sunnudaga í sumar frá kl. 13-17. Sunnudaginn 28. ágúst er síðasta hefðbundna sunnudagsopnunin í sumar í Króki. Um helgina er jafnframt hægt að skoða myndlistarsýningu í hlöðunni/fjósinu við Krók þar
  • Séð yfir Garðabæ

Bærinn Krókur á Garðaholti hefur verið opinn alla sunnudaga í sumar frá kl. 13-17.  Sunnudaginn 28. ágúst er síðasta hefðbundna sunnudagsopnunin í sumar í Króki.  Um helgina er jafnframt hægt að skoða myndlistarsýningu í hlöðunni/fjósinu við Krók þar sem eru verk eftir Álfheiði Ólafsdóttur.  Sjá nánar um sýninguna hér.  Laugardaginn 27. ágúst kl. 14 og 16 eru jafnframt síðustu tónleikar í hlöðunni/fjósinu við Krók á vegum Jóhönnu Halldórsdóttur altsöngkonu og Helgu Aðalheiði Jónsdóttur blokkflautuleikara. Selt er inn á tónleikana og miðasala er á staðnum. Sjá nánari upplýsingar hér í viðburðadagatalinu.

Barnadagskrá í Króki sunnudaginn 11. september  

Sunnudaginn 11. september verður aftur opið í Króki en þá er í boði leiðsögn fyrir börn. Krókur opnar kl. 13 um daginn en leiðsögnin hefst kl. 14 og þá verður Krókur skoðaður og ef veður leyfir verður farið í minjagöngu um Garðaholtið og niður að Garðalind.  Að göngu lokinni verður boðið upp á hressingu í Króki og listasmiðju fyrir börnin.  Krókur verður opinn til kl. 17 um daginn.  Dagskráin er sérstaklega ætluð börnum á aldrinum 5-10 ára en öll börn og fullorðnir eru að sjálfsögðu velkomin.

Bærinn Krókur á Garðaholti

Krókur er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923 og er nú varðveittur með upprunalegu innbúi síðustu ábúenda, hjónanna Þorbjargar Stefaníu Guðjónsdóttur og Vilmundar Gíslasonar. Þorbjörg bjó í Króki allt til 1985 en eftir að hún lést gaf fjölskyldan Garðabæ bæjarhúsin ásamt innbúi þannig að hægt væri að varðveita Krók.  Krókur er gott dæmi um alþýðuheimili frá fyrri hluta 20. aldar og má þar sjá ýmislegt forvitnilegt sem sumir muna eftir frá fyrri tíð.

Tilvalið er að fara í göngutúr um Garðaholtið og koma við í Króki í leiðinni einnig er hægt að leggja bílum við samkomuhúsið á Garðaholti (Krókur er staðsettur ská á móti samkomuhúsinu) við gatnamót Garðavegar og Garðaholtsvegar. 

Vinnuaðstaða listamanns/fræðimanns í Króki

Í Króki er eitt herbergi ætlað fyrir vinnuaðstöðu listamanns/fræðimanns að vetri til.  Í boði er að sækja um vinnuaðstöðuna í 1-3 mánuði í senn.  Nýverið var auglýst eftir umsóknum um vinnuaðstöðuna frá október 2016 til maí 2017.  Sjá nánar hér.