19. ágú. 2016

Samræmt verklag um velferð barna í Garðabæ

Stór hópur fagfólks þvert á stofnanir og félagasamtök í Garðabæ hefur tekið höndum saman um að vinna að vitundarvakningu um velferð barna.
  • Séð yfir Garðabæ

Stór hópur fagfólks þvert á stofnanir og félagasamtök í Garðabæ hefur tekið höndum saman um að vinna að vitundarvakningu um velferð barna. Verkefnið nær til leik-, grunn- og framhaldsskóla í Garðabæ og til íþrótta- og tómstundafélaga í bænum. Allir sem vinna með börnum og ungmennum í bænum fá fræðslu um ýmsa þætti er varða velferð þeirra og um leið er tryggt samræmt verklag um velferð barna í Garðabæ.

Hegðun, heilbrigði og sjálfsmynd

Markmið verkefnisins Velferð barna í Garðabæ er að setja fram heildstæða stefnu í málum er varða ofbeldi, jafnrétti, áhættuhegðun, kynheilbrigði og sjálfsmynd barna. Þróunarvinna verkefnisins hefur staðið yfir síðastliðin þrjú ár með tilstuðlan styrkja frá Sprotasjóði og Þróunarsjóðum leik- og grunnskóla Garðabæjar. Síðasta ár var gefinn út bæklingurinn: Verklag vegna gruns um ofbeldi, vanrækslu eða áhættuhegðun barna. Bæklingurinn er aðgengilegur á rafrænu formi á vefsíðunni www.menntaklif.is. Samhliða fór í loftið rafrænn fræðslubanki sem hefur að geyma fræðsluefni fyrir starfsfólk, börn og foreldra.

Í kjölfarið var ákveðið að þróa tvískipt námskeið ætluð öllum þeim sem vinna með börnum og ungmennum í Garðabæ. Í leik- og grunnskólum hafa sérstök velferðarteymi verið mynduð til að taka þátt í þróun námskeiðanna og tryggja farsæla innleiðingu verkefnisins. Sérfræðingarnir Guðrún Hrefna Sverrisdóttir félagsráðgjafi hjá fjölskyldusviði Garðabæjar, Ólöf Ásta Farestveit hjá Barnahúsi og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir voru fengnir til aðstoðar við þróun námskeiðanna.

Góður rómur gerður að námskeiðunum

Síðastliðna daga hefur starfsfólk grunnskóla setið grunnnámskeið A um verklag vegna gruns um ofbeldi, vanrækslu eða áhættuhegðun barna. Starfsfólk í leikskólum sækir námskeiðið í september. Í október fer fram grunnnámskeið B um jafnrétti, sjálfsmynd og kynheilbrigði í leik- og grunnskólum. Í framhaldinu verða námskeið fyrir starfsfólk annarra stofnana og félagasamtaka sem vinna með börn í Garðabæ.

Markmið námskeiðanna er að innleiða og samræma verklag hjá starfsfólki sem vinnur með börnum og ungmennum í Garðabæ. Fræðsla um réttindi barna og tilkynningaskyldu starfsfólks samkvæmt barnaverndarlögum, þekkja einkenni ofbeldis, vanrækslu og áhættuhegðunar hjá börnum og rétt viðbrögð við úrvinnslu mála með velferð barna að leiðarljósi.

Mikilvæg umræða

Að starfa með börnum er gefandi og krefjandi og taka þarf mið af þroska barnsins hverju sinni. Því er umræða um verklagsreglur á vinnustaðnum og mörk eða markaleysi mikilvæg öllum þeim sem starfa með börnum. Með fræðslu af þessu tagi er starfsfólk betur í stakk búið til þess að sýna rétt viðbrögð og þekkja leiðir til þess að bregðast rétt við aðstæðum á ábyrgan hátt. Aukin meðvitund eykur fagleg vinnubrögð og öryggi í starfi.

Námskeiðið hefur hlotið góðar viðtökur hjá starfsfólki grunnskólanna til þessa. Garðabær fjármagnar verkefnið að stærstum hluta en verkefnastjórn er í höndum þeirra Ágústu Guðmundsdóttur og Ástu Sölvadóttur hjá Menntaklifi sem er þekkingatorg fyrir þróun og miðlun þekkingar og er staðsett í Garðabæ. Hægt er að nálgast upplýsingar um verkefnið á vefjum Garðabæjar og stofnana bæjarins og á vef Menntaklifsins.