19. júl. 2016

Fjölbreyttum störfum umhverfishópa að ljúka

Sumarstarfsmenn í umhverfishópum hafa unnið að fjölbreyttum störfum í sumar og skilað góðu verki.
  • Séð yfir Garðabæ

Sumarstarfsmenn í umhverfishópum hafa unnið að fjölbreyttum störfum í sumar og skilað góðu verki. Í hópunum er ungmenni frá 17 ára aldri og hafa þau verið við störf frá 1. júní. M.a. hafa þau tínt rusl í bæjarlandinu og á fjörum, heft útbreiðslu lúpínu með slætti og stungið upp kerfil og reitt upp með rótum. Hóparnir gróðursettu líka stærri plöntur í lúpínubreiður og unnu við að leggja ofaníburð á útivistarstíga. Einnig eiga þau stóran þátt í góðu gengi árlegrar Jónsmessuhátíðar sem haldin er í Sjálandi af Grósku, samtökum myndlistarmanna í Garðabæ.

Nokkuð færri störfuðu í umhverfishópum í ár heldur en undanfarin sumur. Hóparnir voru fimm, þar af einn utan um atvinnutengd frístundaúrræði fyrir fötluð ungmenni og aðstoðarmenn.Sá hópur sá um umhirðu á Garðatorgi og hreinsaði meðal annars illgresi úr stéttum.

Hóparnir gerðu sér glaðan dag 8. júlí en þá var grillað uppi í Sandahlíð og farið í leiki.

Síðasti vinnudagur yngstu starfsmannanna, þ.e. þeirra sem fæddir eru árið 1999 er 19. júli en aðrir ljúka störfum viku síðar, 26. júlí.

Starfsmönnum umhverfishópa eru þökkuð góð störf í sumar.