7. júl. 2016

Breiðabólsstaðir friðlýstir

Gamla steinhúsið að Breiðabólsstöðum, Álftanesi var friðlýst fyrr í sumar skv. tillögu Minjastofnunar
  • Séð yfir Garðabæ

Gamla steinhúsið að Breiðabólsstöðum, Álftanesi var friðlýst fyrr í sumar eftir tillögu Minjastofnunar til forsætisráðherra. Friðlýsingin tekur til ytra borðs hússins.

Í tilkynningu um friðlýsinguna á vef Minjastofnunar segir:

"Húsið var byggt árið 1883 úr klofnum og tilhöggnum grásteini sem límdur var saman með kalksandi. Húsið er einlyft með kjallara og portbyggðu risi. Veggir þess eru tvöfaldir með loftbili á milli og yfir dyrum og gluggum eru heilir steinar sem ná alla leið yfir opið. Grjótið var tekið víðs vegar á landareigninni. Það var klofið þar sem það fannst og borið heim á börum. Viðir voru fengnir úr gömlu salt- og fiskhúsi Siemsensverslunar sem stóð á Eyrinni niður við Seyluna. Erlendur Erlendsson útvegsbóndi byggði húsið en seldi það síðar nafna sínum Björnssyni.

Breiðabólsstaðahúsið er vel varðveitt og verið er að gera það upp á vandaðan hátt. Það er fágætur vitnisburður um stórt útgerðarheimili frá seinni hluta 19. aldar þegar umfangsmikil sjósókn var stunduð frá Álftanesi og öðrum sjávarbyggðum við innanverðan Faxaflóa. Að öllum líkindum er það eina heillega húsið frá 19. öld sem enn stendur í sveitarfélaginu. Byggingarlag hússins er athyglisvert og óvenju vandað."