27. maí 2016

Áhugaverð fræðsludagskrá á Álftanesi

Félag áhugamanna um sögu Bessastaðaskóla og Fugla- og náttúruverndarfélag Álftaness buðu til kynningar um fuglalíf á Álftanesi
  • Séð yfir Garðabæ

Laugardaginn 14. maí sl. efndu  Félag áhugamanna um sögu Bessastaðaskóla og Fugla- og náttúruverndarfélag Álftaness til kynningar um fuglalíf á Álftanesi í gamla skólahúsinu að Bjarnastöðum og vettvangsskoðunar um Bessastaðanes, heimaslóð skólapilta við Bessastaðaskóla á fyrri hluta 19. aldar.

Jóhann Óli Hilmarsson fuglaljósmyndari og formaður Fuglaverndarfélags Íslands fjallaði í fyrirlestri sínum um ýmsar niðurstöður athugunar á fuglalífi á Álftanesi yfir ákveðið tímabil sem birtar eru í samnefndri skýrslu. Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti, sem var á meðal gesta á Bjarnastöðum, hafði orð á því að fuglalíf á Bessastaðanesi hafi veitt henni ljúfar minningar og sé henni kært.

Að loknum fyrirlestri og léttum kaffiveitingum á Bjarnastöðum leiddi Anna Ólafsdóttir Björnsson sagnfræðingur viðstadda um Bessastaðanesið. Leiðsögn sína nefndi hún "Bessastaðaskóli á Álftanesi - áhrif skólans á nesið og nessins á skólann". Gengið var frá Bessastöðum út á Skans og til baka. Forvitnilegar sögur voru sagðar og ekki spillti veðrið fyrir, eins og sjá má af meðfylgjandi myndum. Anna fræddi þátttakendur í göngunni og varpaði skemmtilegu og upplýsandi ljósi á merkileg gagnvirk tengls skólapilta og kennara við Bessastaðaskóla og annarra íbúa á Álftanesi þau rúm fjörutíu sem skólinn starfaði.