11. maí 2016

Fyrsta hverfið á Íslandi með vistvottun Breeam

Staðfest að skipulag Urriðaholts hafi sjálfbæra þróun, umhverfi og samfélag að leiðarljósi
  • Séð yfir Garðabæ

Urriðaholt í Garðabæ er fyrsta hverfið á Íslandi til að fá vistvottun frá alþjóðlegu samtökunum Breeam Communities. Vottunin staðfestir að skipulag hverfisins taki mið af sjálfbærri þróun og hafi virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi. 

Fékk mjög góða einkunn

Cary Buchanan, fulltrúi Breeam vottunarsamtakanna afhenti Gunnari Einarssyni bæjarstjóra formlega staðfestingu á vistvottun Urriðaholts á málþingi sem haldið var í húsi Náttúrufræðistofnunar í hverfinu, 10. maí. Cary Buchanan sagði að með því að óska eftir vistvottun væri Urriðaholt að staðfesta ásetning um að mæta sem best óskum íbúa og fyrirtækja um gæði, öryggi, fjölbreytni, náttúruvernd og aðgengi að útivistarsvæðum. Hún sagði að rúmlega 40 þættir í skipulaginu hefðu verið metnir í vottunarferlinu og einkunn Urriðaholts væri „very good.“

Gunnar bæjarstjóri sagði við þetta tækifæri að hann fagnaði þeim metnaði sem lýsti sér í vottunarferlinu. Vottunin væri staðfesting þess áhuga á vönduðu skipulagi sem lægi að baki hjá þróunaraðila Urriðaholts. Hann sagði jafnframt að skipulagsvinnan í Urriðaholti væri góð fyrirmynd þess skipulags sem í mótun væri innan bæjarfélagsins.

Margvísleg gæði fyrir íbúa

Vistvottunin tryggir íbúum í Urriðaholti að skipulag hverfisins búi yfir ákveðnum gæðum sem sýna sig með margvíslegum hætti. Þar á meðal má nefna:

  • Gönguleiðir í skóla og leikskóla eru stuttar og öruggar.
  • Gatnaskipulag gerir ráð fyrir öllum ferðamátum, dregur úr umferðarhraða og gerir götur því öruggari fyrir alla vegfarendur.
  • Fjölbreytt útivistarsvæði fyrir fólk á öllum aldri.
  • Nálægð og góðar tengingar við Urriðavatn og fjölbreytt lífríki þess.
  • Gangandi og hjólandi vegfarendur eru í forgangi fyrir bílum.
  • Stutt í verslun og aðra þjónustu.
  • Barnvæn leiksvæði.
  • Þægileg lýsing utandyra, minni ljósmengun.
  • Blágrænar ofanvatnslausnir til að tryggja gróðurvænt umhverfi og verndun Urriðavatns.
  • Vel hugað að hönnun opinna svæða og val á gróðri með tilliti til vistkerfis svæðisins.

Breeam kerfið er alþjóðlegt vottunarkerfi og fremsta vistvottunarkerfi fyrir byggð í heiminum. Nánari upplýsingar um vistvottunina og Breeam vottunarkerfið eru á vef Urriðaholts

Miklar framkvæmdir

Miklar framkvæmdir eiga sér stað í Urriðaholti um þessar mundir. Fjöldi húsa er nú þegar risinn og íbúar fluttir inn. Bygging Urriðaholtsskóla gengur vel, en hann verður bæði leik- og grunnskóli.

Myndir

Mynd 1: Gunnar bæjarstjóri með vistvottunarskjal Urriðaholts ásamt Cary Buchanan, fulltrúa Breeam Communities.

Mynd 2: Hluti þeirra sem koma með einum eða öðrum hætti að mótun og uppbyggingu Urriðaholts í Garðabæ. Frá vinstri: Egill Guðmundsson arkitekt hjá Arkís, Steindór Gunnlaugssson, stjórnarmaður í Urriðaholti ehf, Sigríður Björk Jónsdóttir framkvæmdastjóri Vistbyggðarráðs, Cary Buchanan frá Breeam, Jón Pálmi Guðmundsson framkvæmdastjóri Urriðaholts ehf, Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Halldóra Hreggviðsdóttir framkvæmdastjóri Alta, Stefán Veturliðason stórsír Oddfellowreglunnar, Ásdís Hlökk Theodórsdóttir forstjóri Skipulagsstofnunar, Ólöf Kristjánsdóttir verkfræðingur hjá Mannviti og Hrafnhildur Brynjólfsdóttir frá Alta.