Listadagar barna og ungmenna í Garðabæ 21. apríl - 1. maí
Listadagar barna og ungmenna eru nú haldnir í sjöunda sinn í Garðabæ dagana 21. apríl til 1. maí. Listadagarnir eru haldnir annað hvert ár í lok apríl. Að venju er boðið upp á fjölbreytta dagskrá í skólum bæjarins á öllum skólastigum þar sem uppskera vetrarins er sýnd á margvíslegan hátt.
Vorvindar glaðir
Þema listadaganna að þessu sinni er ,,Vorvindar glaðir“ og í takti við það verða ýmis verkefni sem tengjast þemanu og vorinu sýnd. Gestum og gangandi er boðið í heimsókn í skólana þar sem fjölmörg listaverk eru til sýnis á veggjum og göngum og einnig utandyra. Einnig verður hægt að skoða verk eftir nemendur víðs vegar um bæinn, í íþróttahúsum, Bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi, Gróskusalnum (frá 28. apríl til 1. maí) og í Hönnunarsafni Íslands (frá 26. apríl - 8. maí). Listadagahátíð leik- og grunnskólabarna verður haldin á Vífilsstaðatúni fimmtudaginn 28. apríl og þar verður komið saman og sungið, sirkus og önnur skemmtiatriði. Nemendur á listnámsbraut í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ eru með lokasýningar þessa daga og einnig í byrjun maí.
Söfnin í bænum
Í Bókasafni Garðabæjar verður m.a. boðið upp á sögustund með Gunnari Helgasyni, krítarlistaverk og bókalistasmiðju. Hönnunarsafn Íslands býður foreldrum í fylgd með börnum ókeypis aðgang að safninu meðan á listadögunum stendur. Í Hönnunarsafninu verður sýning á afrakstri samstarfsverkefnis safnsins og Garðaskóla þar sem nemendur úr 8. bekk unnu verkefni út frá sýningunni Ísland er svo keramískt. Í burstabænum Króki á Garðaholti verður opið hús sunnudaginn 1. maí og þar geta börn fengið leiðsögn og búið til sín eigin listaverk.
Landsmót Samtaka íslenskra skólalúðrasveita
Í Tónlistarskóla Garðabæjar verður margt um að vera en þar eru ýmsir vortónleikar framundan. Skólinn kemur einnig að undirbúningi landsmóts Samtaka íslenskra skólalúðrasveita sem verður haldið í Garðabæ 29. apríl – 1. maí. Um 700 ungmenni, foreldrar og fararstjórar víðs vegar af landinu frá um tuttugu skólahljómsveitum sækja bæinn heim þessa daga. Þátttakendur í landsmótinu bjóða svo til stórtónleika sunnudaginn 1. maí í íþróttamiðstöðinni Ásgarði. Það verður því líf og fjör í Garðabænum þegar æft verður af kappi fyrir lokatónleikana.
Öll dagskrá listadaganna er hér á vef Garðabæjar.