14. apr. 2016

Öll 12 mánaða börn fá leikskóladvöl

Öll börn sem verða orðin 12 mánaða 1. september 2016 eiga kost á leikskóladvöl í Garðabæ frá haustinu.
  • Séð yfir Garðabæ

Öll börn sem verða orðin 12 mánaða 1. september 2016 eiga kost á leikskóladvöl í Garðabæ frá haustinu.

Búið er að senda úthlutunarbréf til foreldra vegna leikskóladvalar frá hausti 2016. Sá ánægjulegi áfangi náðist við úthlutunina að hægt var að veita öllum börnum leikskóladvöl sem fædd eru fram til ágústloka 2015.

Gunnar Einarsson bæjarstjóri, segir að í bænum séu starfandi tveir ungbarnaleikskólar sem sérhæfi sig í leikskólastarfi fyrir börn frá 12 mánaða aldri til tveggja ára. „Engu að síður taka fleiri leikskólar í Garðabæ á móti börnum frá 12 mánaða aldri og þá er námsumhverfið lagað að þörfum þeirra,“ segir Gunnar. Hann bætir því við að hann verði var við mikla ánægju foreldra barna sem fædd eru árið 2015 og hafa nú fengið úthlutað leikskóladvöl frá haustinu.

„Mín sýn er sú að fæðingarorlofið verði lengt í 12 mánuði og þá komist börn inn á leikskóla eins og þau gera nú hér í Garðabæ. Þess má þó jafnframt geta að samkvæmt samningi Garðabæjar við dagforeldra borga foreldrar sama gjald hvort sem barn er vistað hjá dagforeldri eða er í leikskóla. Foreldrar eiga því valið eftir því hvað hentar þeim og barninu.“