13. apr. 2016

Fjárhagslegir hagsmunir verði skráðir og birtir

Upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni bæjarfulltrúa og um trúnaðarstörf þeirra utan bæjarstjórnar skulu ?færðar í skrá sem birt verður opinberlega
  • Séð yfir Garðabæ

Upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni bæjarfulltrúa og um trúnaðarstörf þeirra utan bæjarstjórnar skulu færðar í skrá sem birt verður opinberlega, skv. drögum að reglum sem bæjarstjóri kynnti á fundi bæjarráðs nú í vikunni. Bæjarstjóra var falið að vinna áfram að málinu og verða drög að reglunum lögð fram til afgreiðslu á næsta fundi bæjarráðs nk. þriðjudag. 

Samkvæmt drögunum er gert ráð fyrir að eftirfarandi fjárhagslegir hagsmunir verði skráðir:

  1. Launuð störf og önnur starfsemi. Þetta á jafnt við um aðalstarf bæjarfulltrúa og önnur störf og verkefni sem hann tekur að sér, þ.m.t. stjórnarsetu.
  2. Fjárhagslegur stuðningur, gjafir, utanlandsferðir o.fl., þ.m.t. er eftirgjöf eftirstöðva skuldar og ívilnandi breytingar á skilmálum samnings við lánardrottin sem ekki eru veittar á grundvelli almennra skilmála sem gilda á jafnræðisgrundvelli.
  3. Fasteignir, félög o.fl. Hér er tiltekið að ákvæðið taki til hvers konar félagaforma, hvort sem er hluta- eða einkahlutafélaga, sameignarfélaga, samlagsfélaga o.s.frv.

Bæjarfulltrúum ber einnig, skv. drögunum að skrá upplýsingar um stjórnarsetu og önnur trúnaðarstörf fyrir hagsmunasamtök, opinberar stofnanir, sveitarfélög og félög, önnur en stjórnmálaflokka, óháð því hvort þessi störf eru launuð.

Skráin skal byggð á upplýsingum sem bæjarfulltrúi lætur sjálfur í té og færir á rafrænt eyðublað og skal vera birt opinberlega. Reglurnar ná til bæjarfulltrúa og varabæjarfulltrúa sem taka fast sæti í bæjarstjórn. Fulltrúar í nefndum og ráðum, sem ekki eru bæjarfulltrúar, geta einnig fært upplýsingar í skrána í samræmi við þessar reglur, eftir samþykkt þeirra.