4. apr. 2016

Samkeppni um aðkomutákn að bænum

Garðabær, í samvinnu við Hönnunarmiðstöð Íslands, efnir til samkeppni um hönnun á nýju aðkomutákni / einkenni til að marka aðkomu að bænum
  • Séð yfir Garðabæ

Garðabær, í samvinnu við Hönnunarmiðstöð Íslands, efnir til samkeppni um hönnun á nýju aðkomutákni / einkenni til að marka aðkomu að bænum. Vígsla merkisins verður hluti af hátíðhöldum á 40 ára afmælisári Garðabæjar 2016.

Samkeppnin er opin menntuðum hönnuðum, arkitektum og myndlistarmönnum. Ef teymi vinnur saman að tillögunni er nóg að einn úr teyminu uppfylli menntunarkröfur.

Boðið verður upp á kynningarfund um Garðabæ fyrir áhugasama um keppnina, þann 13. apríl í Hönnunarsafni Íslands við Garðatorg en skilafrestur tillagna er til 23. júní 2016.

Aðkomutáknið verður sett upp við aðkomuleiðir inn í Garðabæ og er því ætlað að vekja athygli á Garðabæ og marka það svæði sem honum tilheyrir. Einnig er hugmyndin að þema táknsins verði nýtt á margvíslegan hátt eins og við gerð listmuna, bréfsefnis, vefsíðu o.s.f.v.

Við mat á tillögum verður horft til þess að aðkomutáknið sé grípandi, dæmi um góða hönnun og listsköpun og lýsandi fyrir það sem er einkennandi fyrir Garðabæ. Sérstaklega skal horft til einstakrar náttúru bæjarlandsins. Sjá upplýsingar um friðlýsingar í Garðabæ og um útivistarsvæði í Garðabæ

Unnið verður með vinningshafa að frekari hönnun og útfærslu tillögunnar. Samkeppnin fer fram samkvæmt samkeppnislýsingu, fylgigögnum og samkeppnisreglum Hönnunarmiðstöðvar Íslands.

Fyrstu verðlaun eru samtals 2.000.000 króna og verða veitt fyrir þá tillögu sem valin verður í fyrsta sæti. Dómnefnd er þar að auki heimilt að veita sérstakar viðurkenningar.

Dómnefnd skipa:

Tilnefnd af Garðabæ:
Sigríður Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar og formaður dómnefndar
Harpa Þórsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands
Hringur Hafsteinsson, listrænn stjórnandi Gagarín.

Tilnefnd af Hönnunarmiðstöð Íslands:
Hildigunnur Gunnarsdóttir, grafískur hönnuður FÍT
Michael Blikdal Erichsen, arkitekt hjá T.ark

Sjá nánar á vef Hönnunarmiðstöðvar.