22. mar. 2016

Góugleði og óvænt afmælisveisla

Góugleði Kvennakórs Garðabæjar var haldin í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju, fimmtudaginn 10. mars sl.
  • Séð yfir Garðabæ

Góugleði Kvennakórs Garðabæjar var haldin í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju, fimmtudaginn 10. mars sl. Kvennakórinn heldur árlega Góugleði eða Haustvöku og býður þar upp á fjölbreytta menningardagskrá í tali og tónum.  Sigríður Klingenberg sá um að kynna dagskrána og skemmti gestum á sinn einstaka hátt með speki á milli atriða.  Að þessu sinni var Góugleðin tileinkuð afmælisári Garðabæjar og slegið var upp í óvænta afmælisveislu af því tilefni og gestum boðið upp á afmælisköku og kaffi. Ræðumaður kvöldsins var Sigríður Hulda Jónsdóttir forseti bæjarstjórnar Garðabæjar. Kvennakór Garðabæjar steig á svið í byrjun og lok dagskrár og flutti vel valin lög. 

Verk eftir bæjarlistamann Garðabæjar - Karolínu Eiríksdóttur tónskáld 

Hefð er fyrir því að bæjarlistamaður Garðabæjar hverju sinni komi fram á Góugleðinni og í ár var það Karólína Eiríksdóttir tónskáld og bæjarlistamaður Garðabæjar 2015 sem steig í pontu og kynnti verk sín auk þess sem þrjú verka hennar voru flutt m.a. af Tinnu Þorsteinsdóttur, píanóleikara og Kvennakór Garðabæjar en kórinn flutti verkið ,,Fuglatal brot úr yfirliti yfir fuglana á Íslandi" við texta Jónasar Hallgrímssonar.

Samstarfssamningur undirritaður

Við þetta tækifæri var undirritaður áframhaldandi samstarfssamningur Garðabæjar við Kvennakórinn til næstu þriggja ára en markmiðið með samningnum er að kórinn efli enn frekar menningarlíf í Garðabæ og vinni að uppbyggingu og áframhaldandi samstarfi kóra í bænum.

Kvennakórinn ásamt menningar- og safnanefnd Garðabæjar stóð að Góugleðinni. Á fésbókarsíðu Kvennakórsins er hægt að fylgjast með því sem er á döfinni hjá kórnum og þar eru einnig fjölmargar skemmtilegar myndir frá Góugleðinni.