16. mar. 2016

Fimmtíu ára vígsluafmæli Garðakirkju fagnað

Hátíðardagskrá var haldin í Garðakirkju 5. mars sl. í tilefni af 50 ára vígsluafmæli kirkjunnar
  • Séð yfir Garðabæ

Sunnudaginn 20. mars voru 50 ár frá því að Garðakirkja var endurvígð. Kirkjan var reist á rústum kirkjubyggingar sem byggð var úr höggnu grjóti á árunum 1878-1880.

Séra Þórarinn Böðvarsson lét reisa þá kirkju á eigin kostnað og þótti hún ein gæsilegasta kirkjan á Íslandi á sínum tíma. Þegar sóknarkirkja Garðahrepps var flutt til Hafnarfjarðar árið 1914 fór Garðakirkja að grotna niður og stóðu aðeins hleðslurnar eftir þegar nýstofnað Kvenfélag Garðahrepps átti frumkvæðið að því að kirkjan yrði endurreist.

Í tilefni af hálfrar aldar afmælinu var hátíðarmessa og -dagskrá í Garðakirkju 5. mars sl. þar sem prestarnir Jóna Hrönn Bolladóttir, Friðrik J. Hjartar, Hans Guðberg Alfreðsson og Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands þjónuðu fyrir altari. Að messu lokinni bauð Kvenfélag Garðabæjar upp á kaffi í samkomuhúsinu Garðaholti. Dagskránni lauk með málþingi um málefni Garðakirkjugarðs.

Garðakirkju bárust góðar gjafir í tilefni dagsins sem Magnús E. Kristjánsson, formaður sóknarnefndar veitti viðtöku. Kvenfélagið er að láta smíða bænastjaka til kirkjunnar, Lionsklúbburinn Eik í Garðabæ gaf fallega blómavasa á altarið, Soffía Karlsdóttir tónlistarmaður gaf tvo stóla og Skúli Böðvarsson gaf Vídalínspostillu frá 19. öld og húslestrabók frá 1728.

Við athöfnina fluttu hjónin Gullveig Teresa Sæmundsdóttir og Steinar J. Lúðvíksson erindi þar sem þau ráku sögu endurreisnar kirkjunnar og atbeina kvenfélagsins. Erindið þótti skemmtilegt og fróðlegt og er það birt hér með leyfi þeirra hjóna.

Erindi um sögu endurreisnar Garðakirkju