Yfirborð knattspyrnuvalla verður endurnýjað
Garðabær mun endurnýja yfirborð knattspyrnuvalla í bænum á næstu tveimur til þremur árum.
Í bænum eru átta knattspyrnuvellir. Á sjö þeirra er dekkjakurl en á aðalvellinum í Ásgarði er gúmmíið húðað, sem þýðir að óæskileg efni losna síður úr því út í andrúmsloftið. Á nýjum gervigrasvelli á Álftanesi er annars konar efni.
Á þriggja ára fjárhagsáætlun Garðabæjar, 2017-2019, er gert ráð fyrir byggingu fjölnota íþróttahúss í Ásgarði. Um leið verða vellirnir á Ásgarðssvæði endurnýjaðir en þar eru tveir battavellir, æfingavöllur og tveir vellir í fullri stærð. Verið er að vinna áætlun um endurnýjun annarra valla og verður m.a rætt við KSÍ um endurnýjun á þeim battavöllum sem KSÍ hefur gefið. Jafnframt er verið að skoða hversu miklar aðgerðir þarf að fara í við hvern völl, en það er misjafnt eftir aldri þeirra og gerð.
Þarf að liggja fyrir hvað eigi að koma í staðinn
Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um tillögu til þingályktunar um notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum frá 19. febrúar 2016, er tekið undir hluta af umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur þar sem bent er á að ekki sé "nægilegt að banna notkun eins efnis nema að ljóst liggi fyrir af hendi löggjafans hvaða efni megi nota í staðinn og þá hvaða efnainnihald þau megi innihalda að lágmarki m.t.t. umhverfis og heilsu." Í þessu sambandi er því mikilvægt að ekki sé rokið til og farið í aðgerðir sem ekki bæta ástandið.
Umhverfisstofnun tók í gær sýni af einum velli í Garðabæ, á Akureyri og í Egilshöll. Sýnin verða send til greiningar og má vænta niðurstöðu úr henni á næstu vikum eða mánuðum. Brugðist verður við niðurstöðum greiningarinnar á viðeigandi hátt.
Þótt það sé óumdeilt að dekkjagúmmíið innihaldi ýmis óæskileg efni sem geta losnað úr því og út í andrúmsloftið hafa rannsóknir ekki sýnt að það hafi skaðleg áhrif á heilsu þeirra sem stunda íþróttir á völlunum að öðru leyti en því að ofnæmisviðbrögð geta komið fram hjá viðkvæmum einstaklingum. Þar sem gúmmíið er notað innanhúss og loftræsting er léleg getir gúmmíið líka hugsanlega leitt til astma sé horft til lengri tíma. Vegna þessa og af umhverfisástæðum er almennt talið æskilegt að nota annað efni við endurnýjun valla og gerð nýrra valla. Sú stefna hefur verið mótuð í Garðabæ.