16. feb. 2016

Hugmyndasamkeppni um byggð fyrir ungt fólk

Garðabær auglýsir hugmyndasamkeppni um tillögu að rammaskipulagi byggðar fyrir ungt fólk á Lyngássvæði og við Hafnarfjarðarveg.
  • Séð yfir Garðabæ

Garðabær auglýsir hugmyndasamkeppni um tillögu að rammaskipulagi byggðar fyrir ungt fólk á svæði við Lyngás og Hafnarfjarðarveg. 

Lægra íbúðaverð, samgöngur, útivist og þjónusta

Lögð er áhersla á spennandi íbúðarbyggð sem hentar ungu fjölskyldufólki í hæfilegri blöndu við verslun, þjónustu og skrifstofubyggingar. Einnig er horft til góðra tengsla við samgönguæðar, útivist og þjónustu og að leitast verði við að styrkja tengsl miðbæjar við svæðið við Hafnarfjarðarveg og norðan hans. Í samkeppnislýsingu er tekið fram að við mótun tillögunnar skuli horft til þess að stuðla að lægra íbúðaverði fyrir unga kaupendur og leigjendur.

Útsýni út á Arnarnesvoginn

Svæðinu hallar til norðausturs með útsýni út á Arnarnesvog. Hraunsholtslækur sem er á náttúruminjaskrá rennur um svæðið. Svæðið er miðlægt innan Garðabæjar og í nálægð við verslun og þjónustu. Stutt er í útivistarsvæði við Arnarnesvog, bæjargarð við Hraunsholtslæk og íþróttasvæði við Ásgarð. Stofnbrautin Hafnarfjarðarvegur liggur í gegnum efri hluta svæðisins. Tenging við stofnbrautina Reykjanesbraut er um tengibrautina Vífilsstaðaveg.

Borgarlína með greiðum almenningssamgöngum

Í nýju svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins „Höfuðborgarsvæðið 2040“ er gert ráð fyrir Hafnarfjarðarvegi sem meginstofnvegi og auk þess er gert ráð fyrir borgarlínu sem verði öflug leið almenningssamgangna. Miðbær Garðabæjar og samkeppnissvæðið er við samgöngu- og þróunarás svæðisskipulagsins. Þar kemur fram að unnið verði að markvissri þróun og uppbyggingu borgarlínu, þ.e. hágæða almenningssamgöngukerfis með mikla flutningsgetu og hátt þjónustustig sem kemst greitt milli staða óháð töfum í bílaumferð. Í núgildandi aðalskipulagi Garðabæjar er einnig sett fram sú stefna að Hafnarfjarðarvegur skuli lagður í stokk milli Vífilsstaðavegar og Lyngáss.

Rammaskipulag 

Rammaskipulag er eins konar millistig milli aðalskipulags og deiliskipulags. Í því er sett fram heildarsýn yfir bæjarhluta eða heildir sem eru síðan eftir atvikum deiliskipulagðir í áföngum. Stefnt er að því að svæðið verði skilgreint sem þróunarsvæði til 15 ára í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Í kjölfar rammaskipulags verður deiliskipulag unnið í áföngum á grundvelli uppbyggingaráætlunar.

Nú er unnið að endurskoðun aðalskipulags Garðabæjar sem mun gilda fyrir tímabilið 2016-2030. Stefnt er að því að nýtt aðalskipulag taki gildi um áramótin 2016/2017. Niðurstöður samkeppninnar verða nýttar við endurskoðun aðalskipulagsins.

Samkeppnislýsing og önnur gögn samkeppninnar eru á vef Garðabæjar