Stjarnan - Inter Milan - fjölskylduhátíð og rútuferðir
Stjarnan mætir stórliðinu Inter Milan í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar á miðvikudag, 20. ágúst kl. 21 á Laugardalsvelli. Árangur Stjörnunnar í Evrópukeppninni til þessa er sögulegur. Ekkert íslenskt lið hefur náð jafn góðum árangri og Stjarnan nú á sínu fyrsta ári í Evrópukeppninni, þegar hún hefur leikið sex leiki án taps.
Á Stjörnutorgi fyrir framan Samsungvöllinn verður sannkölluð Evrópudeildar stemmning fyrir leikinn sem hefst kl. 18:00 og stendur til 19:45. Allir eru hvattir til að mæta á upphitun fyrir leikinn, foreldrar, iðkendur, afar, ömmur og aðrir Garðbæingar. Garðabær býður öllum fríar rútuferðir á leikinn og heim aftur.
Grillaðir verða hamborgarar á Stjörnutorgi auk þess sem boðið verður upp á andlitsmálun, hoppukastala og tónlist. Einnig verður til sölu á svæðinu sérstakur Stjörnuvarningur fyrir leikinn.