Helstu viðfangsefni nýs aðalskipulags
Unnið er að endurskoðun Aðalskipulags Garðabæjar. Í endurskoðuninni felst sameining og samþætting núgildandi skipulagsáætlana, þ.e. Aðalskipulags Garðabæjar 2004-2016 og Aðalskipulags Álftaness 2005-2024. Nýtt aðalskipulag verður því fyrsta aðalskipulag sameinaðs sveitarfélags.
Tveir kynningarfundur voru haldnir í nóvember um gerð aðalskipulagsins. Sigurður Guðmundsson, formaður skipulagsnefndar segir að fundirnir hafi verið góðir og að þar hafi komið fram margar ábendingar frá íbúum. „Við erum núna að vinna að frumdrögum nýs aðalskipulags. Engar ákvarðanir hafa verið teknar heldur erum núna verið að skoða ýmsa skipulagskosti, bera þá saman, vega og meta.“
Sigurður hvetur Garðbæinga til að fylgjast vel með vinnunni og koma með ábendingar og hugmyndir. „Það er t.d. hægt að gera á vef Garðabæjar. Einnig er hægt að hafa samband við skipulagsstjóra óski menn eftir nánari kynningu eða útskýringum á tilteknum þáttum. Umræður, ábendingar og athugasemdir sem koma fram á þessu stigi vinnunnar verða nýttar og hafðar til hliðsjónar þegar skipulagsdrög verða mótuð nánar,“ segir Sigurður.
Ítarleg umfjöllun um fundina, helstu áherslur við gerð skipulagsins og meginviðfangsefnin var í Garðapóstinum í vikunni. Hægt er að skoða hana með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan.
Umfjöllun í Garðapóstinum 10. desember um vinnu við gerð nýs aðalskipulags (PDF-skjal, 5,7 Mb)