7. des. 2015

Ráðstafnir vegna óveðurs

Veður gæti raskað skólastarfi að morgni þriðjudags, vinsamlegast fylgist með tilkynningum í fjölmiðlum
  • Séð yfir Garðabæ

Vegna óveðursins sem spáð er seinnipartinn í dag, mánudaginn 7. desember,  hafa almannavarnir lýst yfir óvissustigi um allt land. 

Börn verði sótt fyrir kl. 16:00

Veður verður mjög slæmt á höfuðborgarsvæðinu. SHS, lögregla og almannavarnir mælast til þess að börn verði sótt í skóla og frístundastarf fyrir klukkan 16:00 í dag, þannig að þau séu trygg heima þegar veðrið skellur á. Kennsla í Tónlistarskóla Garðabæjar eftir kl. 16 fellur niður.

Jafnframt hafa skólar verið beðnir um að tryggja að börn yfirgefi ekki skólana nema í fylgd með fullorðnum, enda eru þau örugg þar.

Slökkviliðið þakkar því hversu vel gekk í síðasta óveðri, sem gekk yfir höfuðborgarsvæðið þann 1. desember sl., hversu vel foreldrar og forráðamenn fóru eftir ráðleggingum og héldu sig heima við.

Sjá einnig frétt á vef slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, www.shs.is

Börnum og fullorðnum á höfuðborgarsvæðinu eiga að halda sig heima eftir kl. 16 í dag, nema nauðsyn krefji.

Íþróttamannvirki, sundlaugar og Bókasafn loka kl. 16:30 

Bókasafn Garðabæjar og öll íþróttamannvirki Garðabæjar verða lokuð frá kl. 16:30 í dag. Þetta á við um Sjálandsskóla, Mýrina (TM-höllin), Álftaneslaug og íþróttahús, Ásgarðslaug og íþróttasali.

Allar æfingar íþróttafélaga falla niður.

Bæjarskrifstofur Garðabæjar loka kl. 15 í dag. Þar sem það er hægt er hvatt til þess að starfsfólk vinnustaða fari heim eins snemma og hægt er, jafnvel um kl. 15.

Heimaþjónusta

Dregið verður úr félagslegri heimaþjónustu og einungis bráðnauðsynlegri þjónustu sinnt á meðan veðrið gengur yfir. 

Félagsstarf eldri borgara

Jónshús verður lokað fyrir hádegi á morgun þriðjudag og verður sú ákvörðun endurskoðuð um hádegið.

Almenningssamgöngur

Leitast verður við að halda úti þjónustu Strætó bs. til kl. 18 í dag en röskun gæti orðið á þjónustunni fyrr. Ferðaþjónusta fatalðra stefnir að því að koma öllum farþegum heim fyrir kl. 16.30 í dag. Mælst er til þess að farþegar sem eiga pantaðar ferðir eftir þann tíma að hafi samband við þjónustuver til að breyta ferðum eða afpanti í vefþjónustu akstursþjónustunnar.

Niðurföll

Mælst er til þess að hreinsað sé frá niðurföllum þar sem þess er kostur. Gott er að huga að þessu hið fyrsta meðan færi gefst.

Uppfært kl. 18.20

Veður gæti raskað skólastarfi að morgni þriðjudags, reynt verður að halda grunnskólum opnum en forráðamenn eru beðnir um að fylgjast með tilkynningum í fjölmiðlum.