4. des. 2015

Ryðja allar götur í dag

Farið verður í allar íbúagötur í dag en íbúar eru beðnir um að fjarlægja stór grýlukerti af húsum
  • Séð yfir Garðabæ

Ekkert lát er á kuldatíðinni á höfuðborgarsvæðinu og engin hvíld framundan hjá þeim sem sjá um snjómokstur og -ruðning. Sigurður Hafliðason, forstöðumaður þjónustumiðstöðvar segir að í dag verði kerfisbundið reynt að fara inn í allar götur í bænum og menn séu vel á veg komnir með það núna rétt fyrir hádegi. "Í dag eru á ferðinni í bænum þrír vörubílar með saltkassa, tvær hjólaskóflur, veghefill, þrjár traktorsgröfur og fjórir traktorar.Við viljum ná að ryðja allar götur en þetta tekur langan tíma því snjómagnið er orðið svo mikið. Ég bið fólk endilega um að hafa samband við okkur í þjónustumiðstöðinni eða í þjónustuveri Garðabæjar ef einhverjar götur verða eftir."

Reyna að koma snjónum vel fyrir

Sigrður segir að reynt sé að koma snjónum eins vel fyrir og hægt er en vegna magnsins sé erfitt að koma alfarið í veg fyrir að snjóruðningar fari fyrir innkeyrslur. "Því miður getur það gerst þótt við reynum eins og við getum að koma í veg fyrir það. Við verðum líka að treysta á að íbúar moki innkeyrslurnar sínar sjálfir til að auðvelda sorphirðu og aðgengi að húsum," segir Sigurður. Þeir sem sjá um moksturinn fyrir bæinn slá þó ekki slöku við.  "Okkar menn eru á ferðinni frá kl. 4 á nóttunni og að lágmarki til kl. 17 og eru þá búnir að vinna í 13 klukkustundir. Stundum byrja einhverjir seinna um morguninn og eru þá lengur frameftir, oftast til kl. 19. Í dag, föstudag, er spáin þannig að það gæti farið að hvessa síðdegis og þá getur skafið í skafla, svo fólk verður að vera við því búið."

Fjarlægið stór grýlukerti

Sigurður bendir jafnframt á að íbúar þurfi að gæta að því hvort stór grýlukerti séu á húsum þeirra og leitast þá við að fjarlægja þau svo slys hljóti ekki af. Hann sendi meðfylgjandi mynd af grýlukertum á samkomuhúsinu á Garðaholti.