30. nóv. 2015

Sjálandsskóli sigraði í Stíl 2015

Lið frá félagsmiðstöðinni Klakanum í Sjálandsskóla sigraði í Stíl 2015 og lið úr Garðalundi í Garðaskóla lenti í þriðja sæti
  • Séð yfir Garðabæ

Ungmenni úr Garðabæ voru sigursæl í Hönnunarkeppni Samfés, Stíl 2015, sem fram fór í Hörpu um helgina. Lið frá félagsmiðstöðinni Klakanum í Sjálandsskóla sigraði í keppninni og lið úr Garðalundi í Garðaskóla lenti í þriðja sæti auk þess að fá verðlaun fyrir bestu förðunina.

Þema keppninnar í ár var náttúra sem endurspeglaðist í vinningskjólnum sem þær Jóhanna María Sæberg, Jóhanna Guðrún Jóhannsdóttir og Lína Rut Árnadóttir áttu heiðurinn að. Þær sáu einnig um förðun og hárgreiðslu. Stúlkurnar hafa undirbúið þátttöku í keppninni í allt haust, m.a. í textílvali og í félagsmiðstöðinni Klakanum.

Félagsmiðstöðin 105 lenti í öðru sæti og í því þriðja lenti Garðalundur sem fékk einnig verðlaun fyrir bestu förðunina. Lið Garðalundar skipuðu: Guðrún Ísabella Kjartansdóttir, Sóley Björk Þorsteinsdóttir og Valdís Arnaldardóttir.

Stíll er hárgreiðslu- förðunar- og hönnunarkeppni grunnskólanemenda. Keppnin er haldin á hverju ári af Samfés, samtökum félagsmiðstöðva á Íslandi. Í ár tóku þátt rúmlega 200 unglingar í 40 liðum. Öll vinna keppenda við módel fer fram á staðnum en allur sýnilegur klæðnaður er hannaður af hópnum fyrirfram. Hver hópur skilar einnig möppu sem sýnir vinnuferlið frá hugmynd að lokaafurð sem er studd teikningum og ljósmyndum af flík, hári og förðun og útskýrir hugmyndina á bakvið hönnunina.

Fyrstu tvær myndirnar eru af liði og hönnun liðs Klakans og þriðja myndin er af liði Garðaskóla.

Fleiri myndir eru á vef Sjálandsskóla