11. nóv. 2015

Barnaleikrit sýnt í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ

Leikfélagið Verðandi í FG frumsýndi um síðustu helgi barnaleikritið Tímans Gestur í hátíðarsal skólans.
  • Séð yfir Garðabæ

Leikfélagið Verðandi í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ frumsýndi um síðustu helgi barnaleikritið Tímans Gestur í hátíðarsal skólans.  Öll listræn vinna tengd sýningunni, leikstjórn, handritaskrif, búningahönnun, leikmyndahönnun og leikur er í höndum nemenda. Þetta er í fyrsta sinn sem leikfélagið Verðandi setur upp barnasýningu en hefð er fyrir því að leikfélagið setji upp veglega söngleiki á vorin sem hafa verið mjög vinsælir. Fjölbrautaskólinn í Garðabæ er fyrsti skólinn á landinu sem býður upp á leiklistarbraut til stúdentsprófs og í dag stunda um 100 nemendur nám á þeirri braut.

Tímans Gestur verður sýnt um helgar í nóvember

Leikritið skrifuðu Reginn Tumi Kolbeinsson, Urður Bergsdóttir og Unnur Agnes Níelsdóttir sem að einnig leikstýrir sýningunni. Verkið fjallar um ferðalanginn Gest sem ferðast í gegnum tímann í kistu sem ung stelpa að nafni Emilía á. Eitt kvöld hittast þau og saman ferðast þau í gegnum tímann, þar sem þau hitta t.d. risaeðlur, vonda drottningu, dreka og fara meðal annars til tunglsins. Tíu leikarar eru í sýningunni og bregða þau sér í ýmis hlutverk.

Fleiri sýningar á barnaleikritinu Tímans Gestur eru framundan um helgar í nóvember og sýningin er hluti af fjáröflun leikfélagsins fyrir söngleik byggðan á kvikmyndinni ,,South Park" sem verður frumsýndur næsta vor. Með sýningunni vill Leikfélagið Verðandi jafnframt styrkja menningarstarf fyrir börn í Garðabæ og nágrannabæjarfélögum.

Hér í viðburðadagatalinu á vef Garðabæjar er hægt að sjá nánari upplýsingar um næstu sýningar en einnig má sjá upplýsingar um sýninguna á fésbókarsíðu Leikfélagsins Verðandi í FG.