5. nóv. 2015

Tónlistarveisla í skammdeginu verður haldin 12. nóvember

Hljómsveitin Hjaltalín treður upp í tónlistarveislu í skammdeginu 12. nóvember nk. á Garðatorgi.
  • Séð yfir Garðabæ
Tónlistarveisla í skammdeginu  á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar verður haldin á ný fimmtudaginn 12. nóvember í göngugötunni á Garðatorgi. Í tónlistarveislu ársins er það hljómsveitin Hjaltalín sem stígur á svið. Í hljómsveitinni eru Sigríður Thorlacius, Högni Egilsson, Axel Haraldsson, Guðmundur Óskar Guðmundsson, Hjörtur Ingvi Jóhannsson og Viktor Orri Árnason.  Hljómsveitin Hjaltalín hefur gefið út fjórar plötur og spilað víða við góðan orðstír bæði innanlands sem utan.

Þetta er í þrettánda sinn sem tónlistarveislan er haldin á Garðatorgi og Garðbæingar sem og aðrir tónlistarunnendur hafa kunnað vel að meta og fjölmennt á torgið. Að venju verður reynt að skapa skemmtilega kaffihúsastemningu,  borðum og stólum raðað upp á torginu og gestir geta keypt sér veitingar frá Lionsklúbbi Garðabæjar.  Tónleikarnir byrja klukkan 21 og standa í rúman klukkutíma.

Á fimmtudagskvöldinu 12. nóvember geta gestir og gangandi einnig skoðað myndlist á Garðatorgi í Gróskusalnum.  Myndlistarmenn úr Grósku opna haustsýningu kl. 19 um kvöldið og sýningin verður opin fram eftir kvöldi fyrir tónleikagesti.

Aðgangur að tónlistarveislunni er ókeypis og allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.