6. nóv. 2015

Samstarf um ljósleiðaravæðingu heimila

Garðabær og Gagnaveita Reykjavíkur hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf við ljósleiðaravæðingu heimila í Garðabæ.
  • Séð yfir Garðabæ

Garðabær og Gagnaveita Reykjavíkur hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf við ljósleiðaravæðingu heimila í Garðabæ. Nú þegar eru 1.800 heimili í bænum tengd ljósleiðara frá Gagnaveitunni og með samkomulaginu mun þeim fjölga í 5.300 fyrir lok árs 2018.

500 megabitar á sekúndu

Ljósleiðarinn er gæðasamband fyrir heimili og býður upp á mikla bandbreidd til að anna kröfum nútímaheimila. Ljósleiðarinn flytur gögn á sama hraða í báðar áttir, sem nýtist vel þeim sem nýta sér skýjaþjónustur. „Öllum nýjum heimilum sem tengjast Ljósleiðaranum í Garðabæ stendur til boða 500 megabita nethraði, sem síðar verður hægt að tvöfalda með sama búnaði. Ljósleiðaraþráðurinn sjálfur styður svo mun meiri hraða þegar á þarf að halda,” segir Erling Freyr Guðmundsson framkvæmdarstjóri Gagnaveitunnar. „Ljósleiðarinn er framtíðarlausn í gagnaflutningum,“ bætir hann við.

Ný tækifæri í þjónustu við íbúa

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar segir vilja Garðabæjar að stuðla að því að Garðbæingar hafi aðgang að öflugustu nettengingum sem boðið er upp á í dag. „Ljósleiðarinn býður ný tækifæri í þróun þjónustu við íbúa. Þar er meðal annars horft til öryggisþjónustu, samgangna og skóla þar sem starfið reiðir sig í síauknum mæli á traust og öflug fjarskiptakerfi.“

Opið net

Ljósleiðarinn er opið net og geta viðskiptavinir keypt þjónustu um hann af mörgum fjarskiptafélögum. Það eykur fjölbreytni og eflir samkeppni innan kerfisins. Söluaðilar á þjónustu um Ljósleiðarann eru nú 365, Hringdu, Hringiðan, Símafélagið og Vodafone.

Snjallsamfélag

Öflugt netsamband leggur grunn að snjallvæðingu samfélaga. Úmis tæki og búnaður sem áður var ónettengdur er nú óðum að tengjast sem opnar ný og spennandi tækifæri fyrir samfélög og heimili. Á meðal hugmynda sem eru í umræðu eru snjallvæðing bílastæða, ljósastaura, rafmagnsmæla og ýmissa tækja innan veggja heimilisins,“ segir Erling Freyr.