22. okt. 2015

Afhentu deiliskipulag Garðahverfis

Garðafélagið bauð til stuttrar athafnar í Garðakirkjuhverfi miðvikudaginn 21. október þar sem félagið afhenti Garðabæ formlega deiliskipulag fyrir Garðahverfi.
  • Séð yfir Garðabæ

Garðafélagið bauð til stuttrar athafnar í Garðakirkjugarði miðvikudaginn 21. október þar sem félagið afhenti Garðabæ formlega deiliskipulag fyrir Garðahverfi. Félagið lét vinna skipulagið í samstarfi við bæjaryfirvöld og sóknarnefnd Garðaprestakalls.

Garðafélagið er áhugamannafélag um varðveislu Garðahverfis. Garðafélagið var stofnað eftir að Guðrún Jónsdóttir var jarðsett í Garðakirkjugarði en hún lést í sviplegu bílslysi 28. febrúar 2006, þá aðeins 19 ára gömul. Aðstandendum hennar varð strax ljóst hversu einstakur staður Garðahverfið er en þar fundu þeir kyrrð og frið í umhverfi sem hafði varðveist að miklu leyti ósnortið. Félagið hóf samstarf við bæjaryfirvöld í Garðabæ og aflaði fjár til að standa straum af gerð þess deiluskipulags sem nú hefur litið dagsins ljós en í því er lögð áhersla á að styrkja Garðahverfið sem svæði kyrrðar og útivistar.

Við athöfnina rakti Óskar Magnússon hjá Garðafélaginu tilurð félagsins og sagði frá vinnslu skipulagsins. Óskar afhenti einnig sóknarnefnd Garðasóknar fallegan hleðslugarð sem listaverkið "Allt til eilífðar" til eignar og varðveislu en garðurinn afmarkar neðsta hluta garðsins. Garðurinn er með voldugu hliði sem opnar aðgengi að ströndinni og ekki síst að hinni fornu Garðalind en þangað sóttu íbúar svæðisins vatn, á árum áður. Hönnuðir garðsins eru Kristinn Hrafnsson og Steve Christer.

Magnús E. Kristjánsson, formaður sóknarnefndar Garðasóknar veitti gjöfinni viðtöku. Hann sagði tímamót framundan því á næsta ári eru 40 ár síðan Garðakirkja var endurvígð eftir að kvenfélagskonur í Garðabæ sáu um endurreisn kirkjunnar. Gunnar Einarsson bæjarstjóri fagnaði í ávarpi sínu gjöf Garðafélagsins og deiliskipulagi Garðahverfis og bauð gesti í Garðaholt til kaffisamsætis. Í Garðaholti kynnti Heiða Aðalsteinsdóttir,landlagsarkitekt hjá Alta ráðgjöf markmið deiliskipulagsvinnunnar um Garðahverfi sem samþykkt var í bæjarstjórn Garðabæjar í nóvember 2013.

Garðahverfi - deiliskipulagsuppdráttur (2,4 Mb)

Greinargerði með deiliskipulaginu (5 Mb)

Nánari upplýsingar um skipulagið

Tengill á myndband þar sem innihaldi skipulagsins er lýst