14. okt. 2015

Góður fundur með lögreglu

Góð mæting var á opinn fund Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með íbúum Garðabæjar þriðjudaginn 13. október sl.
  • Séð yfir Garðabæ

Góð mæting var á opinn fund Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með íbúum Garðabæjar þriðjudaginn 13. október sl.  Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar bauð gesti velkomna og Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri kynnti efni fundarins og sagði frá því sem er efst á baugi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og fór yfir skipulag starfseminnar. 

Hefð er fyrir því að fulltrúar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá starfsstöðinni í Hafnarfirði fundi með starfsmönnum og nefndarmönnum Garðabæjar en að þessu sinni var boðað til opins fundar sem íbúum var  boðið til. Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri í Hafnarfirði, fór yfir helstu tölfræði um fjölda tilkynntra brota, s.s. innbrota, þjófnaða, ofbeldisbrota síðustu ára. Einnig var farið yfir fjölda tilkynntra slysa í umferðaróhöppum, umferðarmælingar og greint var frá niðurstöðum úr þolendakönnun þar sem farið var yfir viðhorf til lögreglu. Fundargestir gátu varpað fram spurningum jafnóðum en einnig var tími gefinn til fyrirspurna í lok fundar, fundargestir spurðu m.a. um mönnun lögreglunnar á svæðinu, öryggismyndavélar, umferðarmál við Flataskóla og margt fleira.

Glærukynning frá fundi lögreglunnar í Garðabæ 13. október 2015 (pdf-skjal)

Nágrannavarsla í Garðabæ

Guðfinna B. Kristjánsdóttir, upplýsingastjóri Garðabæjar, greindi frá upphafi nágrannavörslu í Garðabæ og hvernig nágrannavarsla hefur verið innleidd í hverfi Garðabæjar.  Á næstunni ætlar Garðabær að standa fyrir fundum um nágrannavörslu til að rifja upp mikilvægi þess að íbúar standi saman að nágrannavörslu.  Fundirnir verða auglýstir vel á vef Garðabæjar þegar tímasetningar liggja fyrir.

Hér má sjá nánari upplýsingar um nágrannavörslu í Garðabæ.

Fundurinn með lögreglunni var sendur út beint á netinu og margir nýttu sér þann möguleika að geta fylgst með útsendingunni beint.