13. okt. 2015

Samkeppni um byggð fyrir ungt fjölskyldufólk við Hraunsholtslæk

Bæjarstjórn Garðabæjar hefur samþykkt að efna til samkeppni um gerð rammaskipulags um íbúðarbyggð sem hentar ungu fjölskyldufólki, á 21 ha svæði í hjarta Garðabæjar.
  • Séð yfir Garðabæ

Bæjarstjórn Garðabæjar hefur samþykkt að efna til samkeppni á meðal arkitekta og skipulagsráðgjafa um gerð rammaskipulags, með áherslu á þétta íbúðarbyggð sem hentar ungu fjölskyldufólki, á 21 ha svæði í hjarta Garðabæjar.

Tillaga um að efna til samkeppninnar var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar fyrir helgi. Í greinargerð með tillögunni segir að sífellt erfiðara sé fyrir ungt fók að kaupa sína fyrstu fasteign. Þegar rýnt sé í íbúasamsetningu Garðabæjar blasi jafnframt við að þar halli á unga Garðbæinga. Mikilvægt sé að tryggja að í boði séu í bænum búsetuform fyrir fólk á öllum aldursskeiðum.

Miðlægt í Garðabæ

Svæðið sem samkeppnin nær til er við göturnar Lyngás, Skeiðarás, Stórás og Lækjarás, auk svæðisins við Hafnarfjarðarveg frá Vífilsstaðavegi að Lyngási. Svæðið er miðlægt í Garðabæ og í nálægð við verslun og þjónustu, íþróttasvæði og útivistarsvæði. Gert er ráð fyrir að þar verði skipulögð þétt íbúðarbyggð í hæfilegri blöndu við verslun, þjónustu og skrifstofubyggingar þar sem áhersla verði lögð á góð tengsl við samgönguæðar, útivist og þjónustu. Landinu hallar til norðvesturs og þaðan er útsýni út yfir Skerjafjörð. Um jaðar svæðisins rennur Hraunsholtslækur sem er á náttúruminjaskrá og býður upp á tækifæri til þess að tengja saman byggð og náttúru á aðlaðandi hátt.

Mikil tækifæri

Í gildandi aðalskipulagi Garðabæjar er mörkuð sú stefna að Hafnarfjarðarvegur skuli lagður í stokk frá Lyngási að Vífilsstaðavegi og að gatnamót Hafnarfjarðarvegar og Vífilsstaðavegar verði mislæg. Ljóst er að ef að þeirri framkvæmd verður skapast mikil tækifæri til uppbyggingar á svæðinu á milli Hafnarfjarðarvegar og Ásgarðs og til að tengja miðbæ Garðabæjar frá Garðatorgi við Hafnarfjarðarveg og Lyngássvæðið. Samkvæmt nýsamþykktu svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins er gert ráð fyrir borgarlínu, öflugri æð almenningssamgangna, um Hafnarfjarðaveg sem skapar raunhæfa möguleika fyrir fjölskyldufólk til að spara sér útgjöld við rekstur bifreiða.

Þróunarsvæði til 15 ára

Rammaskipulag er eins konar millistig á milli deiliskipulags og aðalskipulags. Rammaskipulag er ekki hluti af lögformlegu skipulagi en er ákjósanlegt ferli til að fá heildarsýn yfir stærri svæði sem síðan eru deiliskipulögð í áföngum. Tillagan gerir jafnframt ráð fyrir að svæðið verði skilgreint sem þróunarsvæði til 15 ára í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Ástæða þess er sú að nú þegar er fjöldi eigna innan svæðisins, bæði atvinnu- og íbúðarhúsnæði. Því er ljóst að margir aðilar þurfa svigrúm til að laga sig að þeim breytingum sem boðaðar eru.

Undirbúningur þegar hafin

Undirbúningur að framkvæmd samkeppninnar er hafinn og gera má ráð fyrir að niðurstaða samkeppninnar liggi fyrir í vor. Þær niðurstöður verður hægt að nýta við gerð aðalskipulags Garðabæjar sem stefnt er að að taki gildi í lok næsta árs.