5. okt. 2015

Vill opna fundi nefnda bæjarins

Bæjarstjórn Garðabæjar vill vinna að því að fundir fastanefnda sveitarfélagsins verði opnir að því marki sem lög og málefnaleg sjónarmið leyfa.
  • Séð yfir Garðabæ

Bæjarstjórn Garðabæjar vill vinna að því að fundir fastanefnda sveitarfélagsins verði opnir að því marki sem lög og málefnaleg sjónarmið leyfa.

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum í gær að fela bæjarstjóra að semja reglur á grundvelli sveitarstjórnarlaga um að fundir fastanefnda bæjarstjórnar Garðabæjar verði almennt haldnir i heyrandi hljóði.

Í 46. gr. sveitarstjórnarlaga segir: “Fundir nefnda skulu almennt haldnir fyrir luktum dyrum. Nefnd er heimilt að opna fundi sína komi fram ósk um slíkt svo fremi sem lög eða eðli máls hamli því ekki. Sveitarstjórn skal setja reglur um meðferð óska um opna fundi nefnda þar sem fram komi skilyrði opnunar.”

Með því að setja skýrar reglur um opna fundi vill bæjarstjórn auðvelda íbúum að setja fram ósk um opinn fund. Í reglunum skal vera ákvæði um að nefndarfundir og dagskrá þeirra séu auglýstir á vef Garðabæjar um leið og fundur nefndarinnar er boðaður. Á vefnum skal jafnframt vera einfalt vefform sem hægt er að fylla út til að óska eftir því að viðkomandi fundur verði opinn. Almenna reglan um meðferð óska um opna fundi verði að við þeim sé orðið nema lög hamli slíku eða formaður hafi málefnalegar ástæður til að hafna óskinni.

Í Lýðræðisstefnu Garðabæjar segir m.a.: „Lýðræði og virkt samráð er einn af hornsteinum stjórnkerfisins í Garðabæ.” Eitt af markmiðum stefnunnar er jafnframt að stuðla að auknum áhuga og þekkingu íbúa Garðabæjar á málefnum sveitarfélagsins.

Í nefndum bæjarins er fjallað um ólíka málaflokka sem tengjast þjónustu bæjarins og nærumhverfi íbúa. Þar eru mál lögð fram, tekist á um þau samkvæmt ákveðnum leikreglum og ákvarðanir teknar. Opinn aðgangur bæjarbúa að fundum nefnda væri vel til þess fallinn að auka áhuga og þekkingu á málefnum sveitarfélagsins og um leið til að styrkja lýðræðið. Það er því æskilegt að nefndarfundir séu opnir að því marki sem lög og málefnaleg sjónarmið leyfa.