11. sep. 2015

Útgáfu Sögu Garðabæjar fagnað

Útgáfu ritsins Sögu Garðabæjar var fagnað með útgáfuhófi í samkomuhúsinu Garðaholti í gær.
  • Séð yfir Garðabæ

Útgáfu ritsins Sögu Garðabæjar var fagnað með útgáfuhófi í samkomuhúsinu Garðaholti í gær, fimmtudaginn 10. september.

Í ávarpi Steinars J. Lúðvíkssonar, höfundar verksins kom fram að verkið hefði þá sérstöðu að vera að miklu leyti byggt á munnlegum heimildum en Steinar tók viðtöl við fjölmarga af frumbyggjum Garðabæjar við ritun verksins sem sumir hverjir eru nú látnir. Sigurður Svavarsson frá Bókaútgáfunni Opnu tók í sama streng og sagðist telja að þau viðtöl sem Steinar tók við vinnslu verksins yrðu ómetanlegar heimildir þegar fram líða stundir.  

Sala á ritinu hefst fljótlega en það verður m.a. hægt að nálgast á Bókasafni Garðabæjar. Verkið, sem segir sögu þess landssvæðis sem Garðabær stendur á, allt frá landnámi, er í fjórum bindum og alls um 1900 blaðsíður. Það prýða fjölmargar ljósmyndir af fólki, byggð og náttúrufari sem gæða frásögnina lífi.  

Á fyrstu myndinni ávarpar Steinar J. Lúðvíksson samkomuna.
Á annarri myndinni er ritnefnd um Sögu Garðabæjar ásamt Jónu Sæmundsdóttur bæjarfulltrúa og Gunnari Einarssyni bæjarstjóra. Frá vinstri: Jóna, Ólafur G. Einarsson, Hilmar Ingólfsson, Sigurður Björgvinsson og Gunnar Einarsson. Laufey Jóhannsdóttir sem var formaður ritnefndar alla tíð, var fjarverandi í gær.

Frétt um afhendingu fyrsta eintaksins af Sögu Garðabæjar til forseta Íslands í vor.