4. sep. 2015

Röskun á umferð á núverandi Álftanesvegi

?Nú er unnið að lokaáfanga framkvæmda við nýja Álftanesveginn um Garðahraun. Vegna framkvæmdanna verður að loka hluta gamla Álftanesvegarins tímabundið. Lokun hefst kl. 10 að morgni laugardagsins 5. september
  • Séð yfir Garðabæ

Nú er unnið að lokaáfanga framkvæmda við nýja Álftanesveginn um Garðahraun. Vegna framkvæmdanna verður að loka hluta gamla Álftanesvegarins tímabundið.

Lokun hefst kl. 10 að morgni laugardagsins 5. september - sjá kort (pdf-skjal)

Lokaáfangi verksins felst í tengingu nýs hringtorgs við Prýðihverfi við núverandi veg og breytingu á legu stofnæðar hitaveitu til Álftaness. Einnig verða gerðar breytingar á raf- og símalögnum ásamt endanlegri malbikun. Reynt verður að hraða þessari framkvæmd eftir megni en þó er fyrirsjáanlegt að lokunin geti varað í allt að 10 daga og jafnvel um 2-3 daga til viðbótar komi upp óvæntar flækjur.

Samtímis þessari lokun verður opnað fyrir umferð um nýja Álftanesveginn þannig að íbúar Álftaness og í Prýðum komast þá leið en einnig má benda á leið um Herjólfsbraut frá  Hafnarfirði.

Rétt er að benda á, að á tímabilinu verður að loka fyrir heitt vatn til Álftaness, þar með talið í Prýðum, í u.þ.b. 10 klukkustundir en þegar þar að kemur verður það auglýst sérstaklega.

Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta veldur.