Vel heppnaður fjörudagur
Fjöldi forvitnilegra lífvera var skoðaður á vel heppnuðum fjörudegi á Álftanesi sem haldinn var 30. ágúst sl.
"Veðurguðirnir léku á sína ljúfustu strengi, eins og endranær frá fyrsta fjörudegi FoNÁ fyrir tíu árum síðan. Ótalinn fjöldi gesta kom í fjöruna við Búðarflöt og kíkti þar undir þara og steina. Fjöldi forvitnilegra lífvera fannst og ungir jafnt sem aldnir höfðu gaman af að skoða afraksturinn nánar þar sem safnast var saman ofan við fjörukambinn. Þrír sjávarlíffræðingar, Svanhildur Egilsdóttir, Steinunn H. Ólafsdóttir og Kristinn Guðmundsson, leiðbeindu og svöruðu spurningum á staðnum.
Nokkur lítil stígvél fylltust, en yfirleitt spillti það ekki deginum. Afar ljúft var að heyra unga snót trúa foreldrum sínum fyrir því að þetta væri besti dagur sumarsins. Hvatning til endurtekningar.
Stjórn FoNÁ þakkar þeim sem komu fyrir samveruna."