12. ágú. 2015

Gaman á leikskólum Garðabæjar í sumar

Margt skemmtilegt hefur verið gert á leikskólum Garðabæjar í sumar. Leikskólabörn á ungbarnaleikskólanum Sunnuhvoli hafa nýtt góða veðrið í sumar til gönguferða og þau hafa líka verið dugleg að tína upp rusl sem einhverjir hafa verið svo óheppnir að missa
  • Séð yfir Garðabæ

Margt skemmtilegt hefur verið gert á leikskólum Garðabæjar í sumar.  Leikskólabörn á ungbarnaleikskólanum Sunnuhvoli hafa nýtt góða veðrið í sumar til gönguferða og þau hafa líka verið dugleg að tína upp rusl sem einhverjir hafa verið svo óheppnir að missa, börnin biðja alla um að nota ruslaföturnar næst. 

Á Lundabóli hefur sumarið meðal annars verið nýtt til að taka til í skólanum, laga og þrífa leikföng og aðra muni.  Einnig var skólinn málaður í litum sem valdir voru í samráði við börnin, nýjar rólur settar og undirlag og girðing bætt. Leikskólinn er því nýmálaður og hreinn þegar börnin koma aftur nú í ágúst.

Á Kirkjubóli hafa börnin hugsað um reit í skólagörðunum í sumar. Í byrjun júní var sett niður grænmeti og farið svo reglulega í garðana til að vökva, reyta arfa og fylgjast með vextinum. Nú er komin uppskera og hafa börnin fengið að gæða sér á gulrótum, hreðkum og salati sem börnin gerðu góð skil í hádegismatnum. 

Í náttúruleikskólanum Krakkakoti hefur sumarið verið viðburðaríkt, í júní voru haldnir „Krakkakotsleikar“ þar sem sett var upp þrautabraut á leikskólalóðinni sem börnin fóru í gegnum og fengu verðlaun þegar þau komu í mark. Einnig var haldin sumarhátíð þar sem þrír af íbúum Latabæjar komu í heimsókn við mikla hrifningu barnanna og sett var upp leikritið um Rauðhettu og úlfinn.  Í júlí var meðal annars farið í fjörufjör, þegar allir fóru niður í fjöru og fengu grillaðar pylsur og hlustuðu á Rebekku Sif úr skapandi sumarstarfi sem söng með börnunum.  Börnin fóru oft í gönguferðir, rannsökuðu náttúruna, fóru í sund og fengu að fara á hestbak. 

Í ágúst kveðja leikskólabörnin svo sumarstarfsfólkið sem verið hefur með þeim í sumar og staðið sig með mikilli prýði og verður þeirra sárt saknað á leikskólum bæjarins.