9. júl. 2015

Umhverfishópar grilluðu í Sandahlíð

Umhverfishópar ungmenna í Garðabæ hafa unnið við fjölbreytt verk í sumar frá því að hóparnir hófu störf í byrjun júní. Nú styttist í vinnulok hjá þeim sem eru í sumarvinnunni og lokadagur 17 ára ungmenna (fædd 1998) verður mánudaginn 20. júlí nk. en 18 ára ungmenni og eldri vinna viku lengur eða til 27. júlí.
  • Séð yfir Garðabæ

Umhverfishópar ungmenna í Garðabæ hafa unnið við fjölbreytt verk í sumar frá því að hóparnir hófu störf í byrjun júní.  Nú styttist í vinnulok hjá þeim sem eru í sumarvinnunni og lokadagur 17 ára ungmenna (fædd 1998) verður mánudaginn 20. júlí nk. en 18 ára ungmenni og eldri vinna viku lengur eða til 27. júlí. Umhverfishópunum ásamt frístund fyrir fötluð ungmenni var boðið í grillveislu í hádeginu fimmtudaginn 9. júlí.  Grillveislan var haldin í skógræktarsvæðinu Sandahlíð í blíðskaparveðri.

Hóparnir hafa komið miklu í verk á þeim tíma sem þeir hafa verið starfræktir í sumar.  Helstu verkefni hafa verið ruslatínsla í bæjarlandinu, heyrakstur á öllum mönum, hefting útbreiðslu lúpínu með slætti og klippingu. Einnig hafa útivistarstígar verið lagðir í Lundamóa, stígar í friðlandi Vífilsstaðavatns hafa verið lagfærðir og hóparnir hafa séð um umhirðu á gróðurbeðum í Kauptúni og unnið við að uppræta kerfil í bæjarlandinu.  Einnig komu umhverfishóparnir að undirbúningu og gæslu við Jónsmessugleði Grósku. Garðatorg hefur fengið verulega snyrtingu á vegum frístundarhóps fyrir fötluð ungmenni sem sópað hefur stéttar og hreinsað illgresi úr hellulögnum. Ungmenni í frístundahópnum hafa verið með aðstöðu inni á Garðatorgi í sumar.