5. jún. 2015

Fyrsta eintakið af Sögu Garðabæjar afhent

Út er komið verkið SAGA GARÐABÆJAR I-IV, eftir Steinar J. Lúðvíksson. Saga Garðabæjar er mikið ritverk, liðlega 1900 blaðsíður, sem skipað er niður í fjögur bindi. Forseta Íslands, hr. Ólafi Ragnari Grímssyni, var afhent fyrsta eintakið af verkinu við athöfn á Bessastöðum í dag
  • Séð yfir Garðabæ

Út er komið verkið SAGA GARÐABÆJAR I-IV, eftir Steinar J. Lúðvíksson

Saga Garðabæjar er mikið ritverk, liðlega 1900 blaðsíður, sem skipað er niður í fjögur bindi. Verkið er búið fjölmörgum ljósmyndum af fólki, byggð og náttúrufari. Í fyrsta bindinu er rakin saga Álftaneshrepps hins forna allt frá landnámi; annað bindið lýsir því hvernig sveitahreppur þróaðist í þéttbýli; þriðja bindið fjallar um það hvernig þessi vaxandi kaupstaður blómstrar og stækkar og fjórða bindið lýsir einstæðu náttúrufari sveitarfélagsins og rekur jafnframt sögu Vífilsstaða, sem kallað var Borgríki vonarinnar.

Höfundur verksins kemst svo að orði í inngangi: „Garðabær nútímans er glögg birtingarmynd þeirra breytinga sem orðið hafa á Íslandi á síðustu einni og hálfri öld, sem í raun er hægt að kalla þjóðlífsbyltingu og táknmynd þess hvernig þjóðin sótti úr eymd og fátækt til efna og velsældar.” Steinar rekur á aðgengilegan hátt breytingar á búsetu, atvinnuháttum, lærdómi, menningu og samfélagi, sem þróaðist frá kotbúskap og smábátaútgerð í öflugan kaupstað. Í verkinu eru raktar sögur af einstaklingum og hópum sem glæða frásögnina lífi og mennsku.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri, fylgir verkinu úr hlaði. Í ávarpi hans segir m.a.: „Það hefur að mínu mati mikið gildi fyrir sveitarfélagið að saga þess sé skráð og varðveitt, bæði til þess að við skiljum betur aðstæður og líf þeirra sem bjuggu hér á undan okkur og til að við getum lært af sögunni og séð hvernig hún mótar líf, aðstæður og jafnvel hugsunarhátt okkar sem búum hér í dag. Þær heimildir sem Steinar hefur aflað með viðtölum sínum við frumbyggjana, fólkið sem tók þátt í uppbyggingu kaupstaðarins Garðabæjar, eru þó í mínum huga það sem upp úr stendur eftir þessa miklu vegferð, en í þeim felast ómetanleg verðmæti sem komandi kynslóðir munu búa að til framtíðar.”

Forseta Íslands, hr. Ólafi Ragnari Grímssyni, var afhent fyrsta eintakið af verkinu við athöfn á Bessastöðum í dag. Verkið fer í almenna dreifingu í haust.

Í ritnefnd Sögu Garðabæjar sátu: Laufey Jóhannsdóttir, formaður, Ólafur G. Einarsson, Sigurður Björgvinsson og Hilmar Ingólfsson.

Saga Garðabæjar, fjögur bindi í öskju, alls 1908 bls.
Garðabær gefur út.
Bókaútgáfan Opna bjó verkið til prentunar.
Anna Cynthia Leplar hannaði öskju og bindi.
Eyjólfur Jónsson annaðist umbrot.

Á meðfylgjandi myndum má sjá Gunnar Einarsson bæjarstjóra Garðabæjar afhenda forseta Íslands hr. Ólafi Ragnari Grímssyni fyrsta eintakið af Sögu Garðabæjar, á hópmynd eru frá vinstri: Sigríður Hulda Jónsdóttir, Erling Ásgeirsson, Hilmar Ingólfsson, Ólafur G. Einarsson, Steinar J. Lúðvíksson, Gunnar Einarsson, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, Laufey Jóhannsdóttir, Sigurður Svavarsson, Áslaug Hulda Jónsdóttir, Sigurður Björgvinsson og Gullveig Sæmundsdóttir.