19. maí 2015

Íbúafundur umhverfisnefndar

Nærumhverfið skiptir okkur máli var heiti íbúafundar sem umhverfisnefnd stóð fyrir 12. maí sl. í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli. Á fundinum voru flutt örerindi um umhverfismál þar sem fjallað var um vorhreinsun, safnhaugagerð, slátt og hirðingu á bæjarlandinu, gróður á lóðum, trjáklippingar, gatna- og stígamál, umhverfismál og reynslu götustjóra af þátttöku í hreinsunarátaki bæjarins. Um 60 manns mættu á fundinn og að loknum erindum var gestum boðið upp á súpu og tóku þátt í umræðum á borðum.
  • Séð yfir Garðabæ

Nærumhverfið skiptir okkur máli var heiti íbúafundar sem umhverfisnefnd stóð fyrir 12. maí sl. í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli.  Formaður umhverfisnefndar Jóna Sæmundsdóttir setti fundinn með stuttu ávarpi um umhverfismál í Garðabæ og tilnefndi Gunnar Einarsson bæjarstjóra sem fundarstjóra.

Á fundinum voru flutt örerindi um umhverfismál þar sem fjallað var um vorhreinsun, safnhaugagerð, slátt og hirðingu á bæjarlandinu, gróður á lóðum, trjáklippingar, gatna- og stígamál, umhverfismál og reynslu götustjóra af þátttöku í hreinsunarátaki bæjarins.  Erindin voru flutt af Erlu Bil Bjarnardóttur umhverfisstjóra Garðabæjar, Smára Guðmundssyni, garðyrkjustjóra Garðabæjar, Eysteini Haraldssyni bæjarverkfræðingi Garðabæjar og Sófusi Gústavssyni,  íbúa við Smáraflöt.

Um 60 manns mættu á fundinn og að loknum erindum var gestum boðið upp á súpu og tóku þátt í umræðum á borðum.  Spurningarnar sem leitast var svara við voru um hvað væri brýnast í umhverfismálum, hvað við gerum vel í umhverfismálum og hvað við getum gert betur.  Góðar umræður voru við borðin og almenn ánægja með hvernig tókst til með íbúafundinn. Ábendingar íbúa sem komu fram á fundinum verða birtar á vefsíðu bæjarins og unnið með þær áfram í umhverfisnefnd Garðabæjar.