16. júl. 2014

Skátar skunda á Landsmót

Skátafélagið Vífill í Garðabæ verður fjölmennast allra skátafélaga á Landsmóti skáta sem haldið verður að Hömrum við Akureyri dagana 20.-27. júlí. Um 60 skátar úr Vífli eru skráðir á mótið og að auki taka fjölskyldur margra þeirra þátt í mótinu í fjölskyldubúðum á sérstöku Garðabæjarsvæði.
  • Séð yfir Garðabæ

Skátafélagið Vífill í Garðabæ verður fjölmennast allra skátafélaga á Landsmóti skáta sem haldið verður að Hömrum við Akureyri dagana 20.-27. júlí. Um 60 skátar úr Vífli eru skráðir á mótið og að auki taka fjölskyldur margra þeirra þátt í mótinu í fjölskyldubúðum á sérstöku Garðabæjarsvæði.

Fjölbreytt og ögrandi dagskrá

Þátttakendur á landsmóti eru á aldrinum 10-22 ára. Alls verða um 2000 þátttakendur á mótinu og koma þeir frá um 20 löndum. Fyrir utan almenna skáta starfar fjöldi sjálfboðaliða á mótinu og margir foreldrar taka einnig þátt og aðstoða við margvísleg verkefni. Dagskráin er fjölbreytt og ögrandi fyrir unga fólkið og endurspeglar áherslur í skátastarfinu almennt sem eru að stuðla að heilbrigðri æsku og öflugum einstaklingum.  Þegar mest er, er reiknað með að um 6-8000 manns verði á svæðinu. Fjölskyldubúðir eru hluti af mótinu og þar geta allir sem vilja dvalið, notið útivistar og upplifað töfra skátastarfsins. Þema mótsins í ár er „Í takt við tímann“. 

Garðbæingum boðið til grillveislu

Sú hefð hefur skapast að Vífill býður öllum Garðbæingum sem mæta á svæðið á heimsóknardeginum, sem er laugardaginn 26. júlí, í grillveislu. Skráning er óþörf, bara að mæta og finna tjaldbúð Vífils.

Laugardagurinn er sérstakur heimsóknar- og kynningardagur svo það verður margt í boði fyrir fjölskyldur og einstaklinga. Allar nánari upplýsingar er hægt að nálgast á heimasíðunni www.skatamot.is  

Undirbúningur fyrir landsmót hefur staðið frá því í haust hjá skátunum í Vífli og nær hámarki nú í vikunni. Margir koma að og vilja forsvarsmenn Vífils nota tækifærið og þakka foreldrum og baklandi fyrir frábæra aðstoð.