14. júl. 2014

Krökkt af sjófugli á Arnarnesvogi

Gríðarlega mikið hefur verið af kríu og öðrum sjófuglum á Arnarnesvogi undanfarna daga og segir vistfræðingur að það stafi af sandsílagegnd í Skerjafirði
  • Séð yfir Garðabæ

Gríðarlega mikið hefur verið af kríu og öðrum sjófuglum á Arnarnesvogi undanfarna daga og segir vistfræðingur að það stafi af sandsílagegnd í Skerjafirði. Auk kríu hefur sést þar til lunda og ritu sem sjaldan sjást á þessu svæði og eins hefur sílamáfur verið áberandi.

Ólafur Karl Nilsson, vistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun segir að fuglarnir hafi byrjað að streyma að fyrir nokkrum dögum. Þeir sjáist vel á Arnarnesvoginum en séu enn meira áberandi utar á firðinum t.d. séð frá Álftanesi og séu líka í fjörunni þar sem sílin sitja eftir þegar flæðir út. Hann segir magnað að fylgjast með þessu sjónarspili og hvetur fólk til að koma og taka með sér sjónauka. "Sandsílastofninn hefur verið í lágmarki undanfarin ár sem hefur orðið til þess að varpið hefur brugðist hjá sjófuglum eins og lunda og kríu. Sandsílagegndin í Skerjafirði bendir til þess að núna sé uppsveifla í stofninum. Sandsílin eru aðal æti kríunnar og það streyma hingað þúsundir einstaklinga dag hvern  til að nýta sér þetta. Fréttirnar virðast hafa borist um stóran hluta Faxaflóa enda sjáum við núna fugla hérna sem koma sjaldan á þessar slóðir eins og t.d. lunda."

Myndband