Þriðjudagsklassík heldur áfram
Tónleikaröðin Þriðjudagsklassík hóf göngu sína á ný í byrjun mars en þá hélt Tinna Þorsteinsdóttir píanóleikari tónleika í sal Tónlistarskóla Garðabæjar. Fleiri tónleikar í tónleikaröðinni eru framundan í vor og næstu tónleikar verða þriðjudagskvöldið 7. april nk., kl. 20 í sal Tónlistarskóla Garðabæjar að Kirkjulundi. Þar koma fram Hallveig Rúnarsdóttir, sópransöngkona og Hrönn Þráinsdóttir, píanóleikari. Á efnisskránni, sem ber yfirskriftina Speglasalur tilfinninganna, eru lög eftir franska tónskáldið Gabriel Fauré, lög eftir austuríska tónskáldið Franz Schubert við ljóð Sir Walter Scott frá árinu 1826 m.a. hið þekkta lag Ave Maria. Síðast á efnisskránni eru lög eftir austurríska tónskáldið Arnold Schönberg. Að tónleikaröðinni standa menningar- og safnanefnd Garðabæjar og listrænn stjórnandi er Ingibjörg Guðjónsdóttir söngkona og kórstjóri. Hér má sjá nánari upplýsingar um tónleikana þriðjudaginn 7. apríl nk.
Viðburður - á fésbókarsíðu Garðabæjar
Tónleikar í maí og júní
Þriðjudaginn 5. maí er það Gunnar Kvaran sem kemur fram ásamt Elísabetu Waage, hörpuleikara og leika þau mörg af fallegustu verkum tónbókmenntanna fyrir selló og hörpu. Gunnar Kvaran þarf var að kynna en hann er einn af fremstu sellóleikurum þjóðarinnar. Gunnar hefur haldið fjölda tónleika bæði hér heima og erlendir og hlotið verðlaun og viðurkenningar í þágu menningar og mannúðarmála.
Á síðustu tónleikum Þriðjudagsklassíkur, þriðjudaginn 2. júní, mun systkinatríóið Ó Ó Ingibjörg stíga á stokk. Það er skipað þeim systkinum og Guðjónsbörnum Ingibjörgu, sópransöngkonu, Óskari, saxofónleikara og Ómari, gítarleikara. Tríóið leiðir áheyrendur um heillandi hljóðheim þar sem klassík og jass mætast og úr verður spennandi og tilraunakenndur bræðingur ólíkra tónlistarstefna. Á tónleikunum fær tríóið til liðs við sig Eyþór Gunnarsson, píanóleikara og Matthías Hemstock, slagverksleikara.