Flórgoðar koma ungum á legg á Vífilsstaðavatni
Fuglaáhugafólk gleðst þessa dagana yfir því því að eitt flórgoðapar hefur komið ungum á legg í friðlandi Vífilsstaðavatns. Sérstakur varpstaður var útbúinn fyrir flórgoða á vatninu í vor.
Tilbúinn varpstaður
Starfsmenn Garðabæjar brugðust í vor við tilmælum fuglafræðinga sem fylgdust með fuglalífi við vötn og strendur Garðabæjar á síðastliðnu ári um „að hlú að flórgoðanum og útbúa varpstaði fyrir hann á Vífilsstaðavatni" en í skýrslu fuglafræðinganna segir að með því séu líkur á að varppörum þar muni fjölga. Sjá skýrslu um fuglalíf í Garðabæ 2013
Greinabúntum var komið fyrir úti í vatninu strax og ísa leysti í vor í umsjón umhverfisstjóra. Greinabúntin voru ætluð sem búsvæði fyrir hreiðurgerð flórgoða því þeir gera hreiður úti á vötnum en síður á vatnsbökkum. Greinabúntin eru úr birkigreinum sem komið var fyrir út frá norðurbakka vatnsins til móts við litla bílaplanið þar sem flórgoðahreiður var staðsett í sefinu sl. sumar. Áformin gengu eftir því flórgoðapar helgaði sér greinabúntin þann 25. apríl. Vonast var til að fleiri pör kæmust þar að líka en það gekk ekki upp, því fyrsta parið varði svæðið með látum. Þá voru sett út fleiri greinabúnt vestar á vatninu, en þau hafa ekki verið tekin í sátt af flórgoðunum.
Sýnið fuglunum tillittssemi
Það er athyglisvert að birkið tók að skrýðast blaðskrúði sem gerir búsvæðið ennþá vistlegra. Svo vistlegar voru grænar birkigreinarnar að komið var að veiðimanni sem taldi víst að fiskurinn héldi sig undir greinunum, sem vel má vera, en athugaði ekki að með því að kasta að búntinu raskaði hann ró fuglsins sem lá þar á hreiðri.
Hundabann við vatnið framlengt
Annað flórgoðapar reyndi hreiðurgerð í sefinu út frá norðaustur bakkanum, sem eyðilagðist í óveðrinu í sl. viku. En þau hjón gefast ekki upp og eru komin með nýtt hreiður á sama stað og lögst á. Nýleg tilmæli fuglafræðinga, sem eru ráðgafar umhverfisstjóra, eru að framlengja hundabann við vatnið til 15. júlí því auk þessara tveggja para eru fimm aðrir flórgoðar á Vífilsstaðavatni. Orðið hefur verið við því og því er hundabann enn í gildi við Vífilsstaðavatn.
Fimm álftarungar
Álftapar hefur komið upp fimm ungum á Vífilsstaðavatni. Hreiður álftanna var á suðausturbakka vatnsins langt frá flórgoðunum.
Það er mikilvægt að virða friðhelgi fugla um varptímann sérstaklega þegar eðalfuglar sækja friðlandið heim við Vífilsstaðavatn.
Myndin sýnir staðsetningu hreiðurstæða flórgoða á vatninu. Kortið gerði Atli Guðjónsson.