27. feb. 2015

Nemendur skammta sér sjálfir í matsal Hofsstaðaskóla

Nemendur í Hofsstaðaskóla taka þessa dagana þátt í tilraunaverkefni í matsal skólans með því að skammta sér sjálfir matinn í hádeginu. Verkefnið hófst fimmtudaginn 26. febrúar og þann dag var plokkfiskur í matinn og skömmtunin gekk mjög vel. Einnig sóttu nemendur sér sjálfir rúgbrauð og ávexti/grænmeti í salatbarinn. Lífrænn úrgangur var í sögulegu lágmarki en aðalmarkmiðið er að minnka hann.
  • Séð yfir Garðabæ

Nemendur í Hofsstaðaskóla taka þessa dagana þátt í tilraunaverkefni í matsal skólans með því að skammta sér sjálfir matinn í hádeginu.  Verkefnið hófst fimmtudaginn 26. febrúar og þann dag var plokkfiskur í matinn og skömmtunin gekk mjög vel. Einnig sóttu nemendur sér sjálfir rúgbrauð og ávexti/grænmeti í salatbarinn. Lífrænn úrgangur var í sögulegu lágmarki en aðalmarkmiðið er að minnka hann. Tilraunin heldur áfram næstu daga í skólanum, en markmiðið er að skipulagið verði framvegis með þessum hætti.

Umræða í bekkjum um matarsóun

Kveikjan að þessari tilraun er að mikil umræða hefur verið um matarsóun, en oft eru hálffullir rusladallar af mat eftir hádegisverðinn. Nemendur eru þátttakendur í þessu verkefni sem hófst með umræðum í bekkjum og hélt áfram á umhverfisnefndarfundi. Í framhaldi af því funduðu fulltrúar skólans og nemenda með starfsfólki Skólamatar þar sem ýmis mál varðandi mötuneytið voru rædd. Nemendur hafa komið með margar góðar tillögur og hefur nú þegar verið brugðist við sumum þeirra.

Það stendur til að vigta úrganginn í matsal og gera nemendur meðvitaðri um góða nýtingu enda flaggar skólinn Grænfánanum og vill að nemendur séu meðvitaðir um ábyrgð sína í umhverfismálum. Í nóvember var til dæmis úrgangur í matsal vigtaður í tvær vikur og þá kom í ljós að hann hafði aukist frá því haustið 2013. Lífrænn úrgangur í bekkjarstofum var vigtaður á sama tíma en þá kom í ljós að hann hafði minnkað umtalsvert í mörgum bekkjum og jafnframt í heildina miðað við haustið 2013.

Sjá einnig frétt og myndir á vef Hofsstaðaskóla