10. feb. 2015

Opið hús á Safnanótt

Hin árlega Safnanótt var haldin föstudagskvöldið 6. febrúar sl. Safnanótt er hluti af Vetrarhátíð í Reykjavík og þetta var í sjötta sinn sem söfn í Garðabæ tóku þátt í hátíðinni. Hönnunarsafn Íslands, burstabærinn Krókur á Garðaholti og Bókasafn Garðabæjar á Garðatorgi og á Álftanesi voru með opið hús frá kl. 19 til miðnættis á Safnanótt.
  • Séð yfir Garðabæ

Hin árlega Safnanótt var haldin föstudagskvöldið 6. febrúar sl. Safnanótt er hluti af Vetrarhátíð í Reykjavík og þetta var í sjötta sinn sem söfn í Garðabæ tóku þátt í hátíðinni.  Hönnunarsafn Íslands, burstabærinn Krókur á Garðaholti og Bókasafn Garðabæjar á Garðatorgi og á Álftanesi voru með opið hús frá kl. 19 til miðnættis á Safnanótt. 

Gleymt og geymt - öðruvísi sýning í Bókasafninu

Í Bókasafni Garðabæjar var boðið upp á fjölbreytta dagskrá á Garðatorgi og á Álftanesi.  Ragnheiður Gröndal og Guðmundur Pétursson fluttu hugljúf sönglög eftir Jóhann Helgason við ljóð Þórarins Eldjárns við góðar undirtektir gesta.  Þau Ragnheiður og Guðmundur hófu dagskrána á Garðatorgi en endurtóku einnig söngdagskrána á Álftanesi síðar um kvöldið.  Rithöfundurinn Guðmundur Andri Thorsson fræddi gesti safnanna um bókina Dægradvöl eftir Benedikt Gröndal og einnig gátu gestir á Garðatorginu hlýtt á kynningu Sigurlínar Sveinbjarnardóttur um bók Vibeke Nörgaard Nielsen um danska listmálarann Johannes Larsen.  Bryndís Björgvinsdóttir rithöfundur flutti hugleiðingu við opnun nýrrar sýningar í safninu á Garðatorgi.  Sýningin nefnist ,,Gleymt og geymt" og þar eru sýndir ýmsir munir sem hafa gleymst í bókum safnsins gegnum árin.  Sýningin stendur áfram í safninu á Garðatorgi.

Un peu plus - ný sýning opnuð í Hönnunarsafninu

Í Hönnunarsafni Íslands á Garðatorgi var sýningin ,,Un peu plus" opnuð á Safnanótt. Viðfangsefni sýningarinnar eru tískuteikningar Helgu Björnsson, sem var yfirhönnuður hátískulínu tískufyrirtækisins Lois Féraud í Frakklandi.  Boðið var upp á leiðsagnir um nýju sýninguna en auk þess voru einnig leiðsagnir um hina vinsælu sýningu ,,Ertu tilbúin frú forseti?".  Síðastliðinn sunnudag var einnig boðið upp á leiðsögn um forsetasýninguna í fylgd frú Vigdísar Finnbogadóttur og fjölmargir lögðu leið sína í safnið um helgina.  

Fleiri myndir frá Safnanótt eru á fésbókarsíðu Garðabæjar